Spyr um afstöðu þingmanna 2009

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þar sem hún spyr meðal annars hvaða atkvæðaskýringar, yfirlýsingar eða önnur gögn búi að baki staðhæfingum hans um að leiða megi að því rök að ekki hafi verið meirihlutavilji fyrir þingsályktun sumarið 2009 um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Vísaði hún þar til ummæla í greinargerð með þingsályktunartillögu ráðherrans um afturköllun umsóknarinnar sem nú hafa verið fjarlægð úr henni.

„Hvaða atkvæðaskýringar, yfirlýsingar eða önnur gögn búa að baki þeim staðhæfingum sem fram hafa komið hjá ráðherra um að leiða megi að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir ályktun Alþingis 16. júlí 2009 um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur hafi hún verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna?“ segir í fyrri spurningu fyrirspurnarinnar.

Katrín vill einnig vita hver hafi verið raunverulegur meirihluti ef ekki var meirihlutavilji fyrir ályktuninni. „Ef ekki var meirihlutavilji á Alþingi 16. júlí 2009 fyrir ályktun þingsins um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu samkvæmt þeim gögnum sem ráðherra hefur, hver var þá hinn eiginlegi meiri hluti og hvernig var hann skipaður? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti um afstöðu einstakra þingmanna sem ráðherra telur hafa greitt atkvæði með öðrum hætti en afstaða þeirra í atkvæðagreiðslunni sagði til um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert