Fimm þúsund skátar til Íslands

Á skátamóti.
Á skátamóti. Skátar/Guðmundur Pálsson

Heimsmót fyrir skáta á aldrinum 18-25 ára - World Scout Moot – verður haldið á Íslandi árið 2017 og er gert ráð fyrir 5.000 þátttakendum.

Skátarnir á Íslandi halda mótið fyrir alþjóðahreyfingu skáta - World Organization of the Scout Movement (WOSM) en fulltrúar hennar eru væntanlegir  til Íslands um næstu helgi á vinnufund með mótsstjórninni, segir í tilkynningu.

Mótið á Íslandi verður það 15. í röðinni og fá skátar í 216 löndum boð um að koma á það. Síðast þegar mótið var haldið í Evrópu, en það var í Svíþjóð 1996, voru þátttakendur frá 77 löndum.

Hrönn Pétursdóttir mótsstjóri gerir ráð fyrir góðri þátttöku íslenskra skáta og jafnframt þátttöku sjálfboðaliða í ýmsum störfum til að láta mótið verða að veruleika. Hópurinn verður stækkaður jafnt og þétt er nær dregur en gert er ráð fyrir að 700-1000 sjálfboðaliða, bæði innlenda og erlenda, þurfi til að tryggja framkvæmd mótsins. 

Mótið verður haldið á Úlfljótsvatni hluta tímans og þar hafa staðið yfir framkvæmdir til að geta tekið á móti svo miklum fjölda. Tjaldsvæði hafa verið stækkuð og hreinlætisaðstaða stórbætt.  Fyrstu dagar mótsins verða þó með skipulagðri dagskrá út frá 10-12 stöðum víða um Ísland, þar með talið samfélagsverkefni af margvíslegum toga. „Við munum sennilega nota svæðið frá Snæfellsnesi til Skaftafells undir ferðadagskrána, sem og Akureyri,“ segir Hrönn í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert