Skjöl fundust í þakklæðningu

Hátt í sjötíu ára gömul skjöl og kvittanahefti fundust.
Hátt í sjötíu ára gömul skjöl og kvittanahefti fundust. Ljósmynd/Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hátt í sjötíu ára gömul skjöl og kvittanahefti, sem ætla má að hafi flest heyrt undir viðskiptaráðuneytið á árunum 1946-48, komu á dögunum ljós í Arnarhvoli. Skjölin fundust á heldur óhefðbundnum stað, eða í gamalli þakklæðningu sem verið er að skipta um í endurbótum á húsnæði fjármálaráðuneytisins. Þetta kemur fram á vefsvæði ráðuneytisins.

Ráðuneytið hafði strax eftir fund skjalanna samband við Þjóðskjalasafn, sem tekur við þeim.

Skjölin, sem eru í nokkru magni, fela í sér ýmis samskipti við Fjárhagsráð, sem fór með innflutnings- og gjaldeyrismál á eftirstríðsárunum, og Nýbyggingarráð, sem starfaði í tíð ríkisstjórnar Ólafs Thors á árunum 1944-1947 og sinnti m.a. nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Lokið var við þakklæðninguna sem skjölin fundust í árin 1948-9. Spurningunni um hvers vegna skjölin rötuðu þangað á sínum tíma er hins vegar ósvarað.

Samkvæmt reglum Þjóðskjalasafns Íslands ber opinberum stofnunum að varðveita öll skjöl eldri en frá 1960 og er grisjun ekki heimil. Ráðuneytið hefur gert Þjóðskjalasafni viðvart um skjölin og tekur safnið við þeim og skoðar.

Þetta bréf var meðal þess sem kom í ljós í …
Þetta bréf var meðal þess sem kom í ljós í gömlu þakklæðningunni, en það er frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Ljósmynd/Fjármála- og efnahagsráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert