„Ég átta mig ekki á þessum kenndum“

Áverkarnir á hryssu Grétars.
Áverkarnir á hryssu Grétars. mbl.is/ Grétar Hallur Þórisson

Eigandi hryssunnar, sem talið er að hafi verið misþyrmt á kynfærum á Kjalarnesi um helgina, vill benda hrossaeigendum, sem eiga spakar merar í haga, að líta til með þeim. Hann segir útilokað að um slys hafi verið að ræða, áverkarnir séu þess eðlis að þeir séu af mannavöldum. Dýralæknir hjá Matvælastofnun, sem hefur skoðað myndir af áverkunum, segir þeim svipa til áverka sem voru á kynfærum hryssna árið 2011, sem taldir voru vera af mannavöldum.

Grétar Hallur Þórisson er eigandi hryssunnar, sem er ótamin, fjögurra vetra meri. Hún er fylfull við Nóa frá Stórahofi, sem var að sögn Grétars heimsmeistari í fjögurra vetra flokki á síðasta landsmóti hestamanna.

Hann kom að henni í gærmorgun, en þá lá hún við heygjafargrind í haganum. „Hún er þarna í útigangi hjá mér ásamt fleiri hrossum og ég sá strax að eitthvað var að. Ég sá að það var blóð frá henni og það fyrsta sem mér datt í hug var að hún hefði látið, því hún er fylfull. En þegar ég fór að skoða þetta nánar sá ég hvers kyns var. Ég ráðfærði mig við aðra hestamenn og við vorum sammála um það þetta væri keimlíkt þeim áverkum sem hafa verið á öðrum hryssum. Að þetta væri af mannavöldum.“

Það sem Grétar vísar til er að árið 2011 komu upp nokkur tilvik þar sem talið var að skorið hefði verið í kynfæri hryssna. Málin voru rannsökuð, en voru ekki upplýst.

Hryssan er undir eftirliti dýralæknis

Grétar segir útilokað að hryssan hafi hlotið áverkana vegna einhvers sem er í haganum. „Það er ekkert í haganum sem hefði getað valdið þessu, það er ekki eins og hún hafi rispað sig á vír eða nagla, heldur er þetta er beinn og hreinn skurður. Það er eins og skorið hafi verið í hana með beittum hníf með þunnu blaði eins og dúkahníf.“

Grétar tilkynnti lögreglu strax um málið og er það nú í rannsókn. Hryssan er undir eftirliti dýralæknis, en Grétar segir áverkana ekki vera hættulega. Þeir séu til hliðar við kynfærin og sárið virðist ætla að lokast vel, en það er um 5 cm á lengd og um 1 cm djúpt.

Furðulega bíræfnir menn

„Það þarf að uppræta þetta, ég get ekki ímyndað mér hvað fólki gengur til og átta mig ekki á þessum kenndum. Ég vil brýna fyrir hestaeigendum, sérstaklega þeim sem eiga stilltar og spakar merar í haga, að fylgjast vel með hrossum sínum. Það virðist vera auðvelt að ganga að þeim og gera þeim mein. Þetta gerðist nánast við húsið hjá mér, það er furðulegt hvað menn eru bíræfnir, að vappa þarna inn á hlaðið hjá manni á milli hrossanna.“

Grétari er ekki kunnugt um að fleiri hestum hafi verið misþyrmt á þennan hátt á Kjalarnesi. „En hvað veit maður. Hversu mörgum hefur verið misþyrmt án þess að maður viti af því? Það má vel vera að það séu mörg tilfelli sem enginn veit um.“

Möguleiki á að framið hafi verið ódæðisverk

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, hefur skoðað myndir af áverkum hryssu Grétars. Hún segir að erfitt sé að fullyrða fyrir víst hvernig þeir séu tilkomnir. 

„Ég vil að það komi skýrt fram að þetta er grunur um misþyrmingar. En þessu svipar mjög til tilfella sem komu upp árið 2011 og voru rannsökuð eins og hægt var á sínum tíma, án þess að niðurstaða fengist. Það er möguleiki á að það hafi verið framið ódæðisverk, en það er þó ekki hægt að útiloka aðrar orsakir. Þegar það eru engin vitni, þá er erfitt að fullyrða eitt eða neitt,“ segir Sigríður. „Nú rannsakar lögregla málið og vonandi kemst hún til botns í því.“

Frétt mbl.is: Hryssu misþyrmt á kynfærum

Hestar í haga.
Hestar í haga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert