Hverirnir á landi í eigu ríkisins

Ferðamenn við Geysi
Ferðamenn við Geysi mbl.is/Golli

Íslenska ríkið á um 23 þúsund fermetra land í hjarta hverasvæðisins við Geysi en á þeim bletti má finna hverina Geysi, Strokk og Blesa, sem gefa svæðinu mikið aðdráttarafl. Landið umhverfis þessa séreign ríkisins er hins vegar í sameign ríkis og félags landeigenda, þ.e. Landeigendafélags Geysis ehf., en ríkissjóður á fyrir utan séreignina um það bil 25% í sameignarlandinu með félaginu.

„Ríkið hefur ekki viljað fallast á gjaldtöku, ekki inn á sameignarlandið og alls ekki inn á sitt eignarland.

Við höfum talið að sameigendur okkar á sameignarlandinu hafi hvorki heimild til að rukka þangað inn né inn á séreignarland ríkisins, ekki frekar en einhverjir aðrir geti farið að selja inn á einkalönd annarra manna,” segir Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins, í samtali við mbl.is.

Gjaldtaka forsenda verndunar

Eins og kunnugt er hófst gjaldtaka við Geysissvæðið á laugardaginn síðasta en einstaklingar sautján ára og eldri þurfa nú að greiða 600 krónur til að komast inn á svæðið.

Landeigendafélagið hefur lengi bent á að það hafi borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur kæmu á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á Geysissvæðinu. „Geysissvæðið ber að vernda og gjaldtaka er forsenda þess,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér fyrir helgi.

Málið tekið fyrir á föstudaginn

Ívar segir að ríkið sé ekki eigandi í Landeigendafélagi Geysis. „Það félag er heldur ekki eigandi sameignarlandsins. Það er að mati okkar ekki með lögbundnar heimildir til þess að rukka inn á sameignarlandið,” segir hann.

Hann bætir því við að ríkið hafi boðist til að bera kostnað af nauðsynlegum framkvæmdum til að tryggja vernd svæðisins sem og til að kosta rekstur þess og gæslu út árið 2015. Var það boðið gegn því að sameigendur féllu frá gjaldtökunni og reynt yrði þá í kjölfarið að ná samkomulagi um framtíðarskipan mála á svæðinu.

Eins og greint hefur verið frá hafnaði sýslumaðurinn á Selfossi lögbannskröfu ríkisins vegna gjaldtökunnar. Ríkið hefur skotið málinu til Héraðsdóms Suðurlands og verður málið tekið þar fyrir næstkomandi föstudag, að sögn Ívars.

Hér má sjá kort af Geysissvæðinu

Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins.
Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert