Mikilvægt að varðveita norrænar áherslur

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Rósa Braga

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í dag ræðu við setningu Norðurslóðaráðstefnu í Bodö í Noregi. Ráðstefnuna sitja fulltrúar ýmissa ríkja, sérfræðingar, fræðimenn og forystumenn í atvinnulífi. Heiti hennar er Arctic Dialogue – Samræður um norðurslóðir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í ræðunni, sem ber heitið The Nordic Countries in a Global Arctic, fjallaði forseti um hlutverk Norðurlanda í þróun samstarfs á norðurslóðum, rakti hvernig langvarandi reynsla af norrænu samstarfi, gagnkvæmt traust Norðurlanda og ríkar hefðir um lýðræðislega umfjöllun og víðtæka félagslega þátttöku skiptu sköpum við mótun Norðurskautsráðsins, einkum á síðustu tíu árum þegar Norðurlöndin hafa gegnt þar formennsku.

Skýrslurnar, sem samdar voru í formannstíð Íslands, um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og þróun mannlífs og byggða og ákvörðunin um áheyrnaraðild forysturíkja í Asíu og Evrópu í formannstíð Svíþjóðar eru meðal slíkra hornsteina.

Framvegis yrði rúmlega helmingur G-20 ríkjanna, leiðandi ríkja í efnahagsmálum veraldar, við samræðuborð norðurslóða, og því myndi framlag og framganga Norðurlanda skipta æ meira máli. Norræn samvinna, sem áður hefði fyrst og fremst snúið að Norðurlöndum sjálfum, myndi í framtíðinni hafa afgerandi áhrif á þróun norðurslóða.

Í þessu sambandi væri mikilvægt að varðveita norrænar áherslur um umhverfisvernd, félagsleg réttindi, lýðræðislegar umræður og þátttöku almannasamtaka sem og virðingu fyrir náttúrunni og menningu frumbyggja.

Forseti rakti ýmis dæmi um framlag Norðurlanda á síðustu árum og hvatti til enn nánari samvinnu Norðurlanda um málefni norðurslóða. Það væri í senn skylda okkar og nauðsyn, hinn nýi prófsteinn á gildi norrænnar samvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert