Rekstur raforkukerfisins óviðunandi

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mynd/Landsnet

Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum er þess ekki að vænta að frekari uppbygging hefjist á næstunni í meginflutningskerfis raforku á Íslandi. Landsnet segir brýnt að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem fyrirtækið geti haft að leiðarljósi í þessu máli, því rekstur raforkukerfisins sé orðinn óviðunandi og aðgangur að öruggri raforku í háður búsetu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti, en þar segir að þetta hafi verið á meðal þess sem fram kom á almennum kynningarfundi sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í dag, samhliða aðalfundi Landsnets.

Þá segir, að það hafi komið skýrt fram að fyrirtækið sé ekki andsnúið jarðstrengjum - og hafi enga hagsmuni af að leggja ekki jarðstrengi – en stjórnendur þess telji sig bundna af ákvæðum raforkulaga um að „byggja flutningskerfið upp á eins hagkvæman hátt og frekast er unnt.“

Loftlínur hagkvæmari kostur

„Loftlínur eru enn sem komið er hagkvæmari en jarðstrengir á hærri spennum og því kallar Landsnet, eins og aðrir hagsmunaðilar, eftir stefnumótun stjórnvalda í þessu mikilvæga máli svo horfa megi til framtíðar í uppbyggingu flutningskerfisins,“ segir í tilkynningu.

„Landsnet leggur nú áherslu á að afla sem bestra upplýsinga um kostnað við lagningu jarðstrengja og meta áhrif þeirra á uppbyggingu meginflutningskerfisins. Var bæði leitað til innlendra og erlendra sérfræðinga og horft til reynslu nágrannaþjóða í Evrópu sem mótað hafa skýra stefnu í lagningu jarðstrengja, þó áherslurnar séu mismunandi. Hefur Landsnet m.a. greint kostnað við framkvæmdir næstu 10 árin miðað við óbreytta stefnu um loftlínur á hærri spennum annars vegar og hins vegar fyrirsjáanlegar kostnaðar- og gjaldskrárhækkanir ef farin yrði annaðhvort „dönsk“ eða „hollensk“ leið í lagningu jarðstrengja,“ segir ennfremur.

2 milljarða hagnaður af starfseminni

Þá kom fram, að rúmlega tveggja milljarða króna hagnaður hafi verið af starfsemi Landsnets árið 2013.

Fram kom á fundinum að lagabreytingar sem gerðar voru árið 2010 og áttu að auka hagræðingu í rekstri fyrirtækisins hefðu ekki enn skilað sér. Ákvörðun um tekjumörk fyrir árin 2011-2015 liggi ekki enn fyrir vegna kæruferla og þ.a.l. liggi ákvörðun um arðsemi og tekjumörk ekki enn fyrir, rúmum þremur árum eftir gildistöku laganna. Var því beint til stjórnvalda að taka til endurskoðunar ákvæði sem varða úrskurði og kærur þannig að eðlilegt umhverfi verði skapað fyrir rekstur Landsnets

Heimasíða Landsnets.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði fundinn í dag.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði fundinn í dag. mynd/Landsnet
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert