Þvert á sjávarútvegsstefnu ESB

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríki geta ekki staðið fyrir utan sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gangi þau í sambandið. Þetta kom fram í svari Thomas Hagleitners, fulltrúar stækkunardeildar Evrópusambandsins, við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins sem fram fór í Reykjavík í dag en hann er annar formaður nefndarinnar.

„Ég spurði hann að því hvort ríki gætu staðið fyrir utan sameiginlega stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og það kom alveg skýrt fram hjá honum að það væri ekki hægt. Það þýðir einfaldlega að okkar markmið að halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni okkar er ekki í boði. Það fer þvert á sjávarútvegsstefnu sambandsins,“ segir Guðlaugur.

Hann segist ennfremur hafa spurt Hagleitner hvort ríki sem hætti viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið gætu sótt um að nýju. Hagleitner hafi sagt að ekkert væri því til fyrirstöðu.

Frétt mbl.is: Ræðir samskipti Íslands og ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert