Óðinn sækist ekki eftir endurráðningu

Óðinn Jónsson.
Óðinn Jónsson. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Óðinn Jónsson og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hafa gert samkomulag um áframhaldandi störf Óðins fyrir Ríkisútvarpið. Óðinn hyggst ekki sækjast eftir endurráðningu sem fréttastjóri en mun starfa við hlið nýs fréttastjóra til 1. október næstkomandi. Eftir það mun hann færast til innan Ríkisútvarpsins og sinna störfum á sviði dagskrárgerðar og fréttatengds efnis. Nánari útfærsla á þessum verkefnum verður kynnt síðar.

Sem kunnugt er kynnti útvarpsstjóri umfangsmiklar breytingar á skipulagi RÚV í síðustu viku og sagði samhliða upp ráðningarsamningum við alla í framkvæmdastjórn. Í framhaldinu voru nýjar stöður í framkvæmdastjórn auglýstar lausar til umsóknar. Umsóknarfrestur um þær rennur út 2. apríl nk.

Óðinn Jónsson hefur gegnt starfi fréttastjóra frá árinu 2005: „Ég er stoltur af árangri og stöðu Fréttastofu RÚV á miklum umbrotatímum. Starfið sem ég hef sinnt síðustu níu árin hefur verið mjög áhugavert og gefandi. Hinsvegar hafði ég aldrei hugsað mér að verða ellidauður í þessu starfi og tel að nú sé rétti tíminn til að takast á við ný verkefni. Ég var og verð áfram frétta- og dagskrárgerðarmaður og þykir vænt um Ríkisútvarpið eftir langa samfylgd. Því hlakka ég til að takast á við ný og spennandi verkefni á vettvangi RÚV og skila öflugri fréttastofu í nýjar hendur. Ég vona að sem flestir hæfir fréttamenn sækist eftir þessu mikilvæga starfi. Fréttastofa RÚV hefur á undanförnum árum notið yfirburða trausts í samanburði við aðra fréttamiðla – og það er brýnt að halda þeirri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert