„Gömul lögmál gilda ekki“ við Geysi

Ferðamannafjöld við Geysi.
Ferðamannafjöld við Geysi. mbl.is/Golli

Gjaldheimta inn á Geysissvæðið hófst aftur í morgun, eftir stutt hlé síðdegis í gær um það leyti sem Ögmundur Jónasson lagði leið sína á svæðið í mótmælaskyni. Aðspurður segir Garðar Eiríksson, talsmaður landeigendafélags Geysis, að fleiri mótmælendur hafi ekki látið sjá sig.

„Það er allt með ró og spekt. Ögmundur vildi bara ná athygli, hann þrífst á því. En við erum friðsemdarfólk og 99,9% okkar gesta eru friðsemdarfólk. Þetta gengur bara ljúft og eðlilega fyrir sig,“ segir Garðar.

Stökkbreyting í ferðamennskunni

Aðgangseyrir inn á svæðið er 600 krónur, sem rukkaðar eru við innganginn. Garðar gefur ekki upp hversu mikið hafi komið í kassann um helgina, „en við eigum orðið fyrir launum fyrir stóran vinnustað í uppsveitum Árnessýslu, og það er heilmikið að ná því“.

12 fastir starfsmenn eru á launaskrá á svæðinu, auk þess sem skólakrakkar eru í lausamennsku þar um helgar. Stjórnarmenn og aðrir sem einnig hafa komið að málinu gera það í sjálfboðavinnu, að sögn Garðars.

„Það er bara orðin svoddan stökkbreyting í ferðamennsku á Íslandi, gestunum hefur fjölgað svo mikið, að það bara gilda ekki gömul lögmál lengur,“ segir Garðar.

Framkvæmdir verða í smáskrefum

Aðspurður hvort eitthvað af greiddum aðgangseyri hafi nú þegar farið í uppbyggingu á svæðinu segir Garðar að til að byrja með hafi verið greiddar niður skuldir.

Ef þetta fer allt saman vel verða menn að fjárfesta í dýrari búnaði við hlið, síðan fjárfesta í stígunum, girðingum og slíku. Það verða einhver skref tekin jafnt og þétt, en einhvers staðar verða menn að byrja. Við afhendum fólkinu bæklinga um svæðið og tökum vel á móti því. Við ætlum okkur að gera þetta vel úr garði.“

Ferðamenn rukkaðir um 600 krónur inn á Geysissvæðið.
Ferðamenn rukkaðir um 600 krónur inn á Geysissvæðið. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert