Dregur úr stuðningi við ríkisstjórnina

37% aðspurðra sögðust styðja ríkisstjórnina.
37% aðspurðra sögðust styðja ríkisstjórnina. mbl.is/Golli

37% Íslendinga segjast nú styðja ríkisstjórnina, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Capacent Gallup, sem er fimm prósentustigum færri en í síðustu könnun. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

Þjóðarpúlsinn var gerður á tímabilinu frá lokum febrúar til miðvikudagsins síðasta.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem áður með mest fylgi allra flokka, eða 24,4%, sem er nánast óbreytt frá síðustu könnun. Björt framtíð er hins vegar orðinn næststærsti flokkur landsins en hann mælist nú með 17,5% fylgi. 

Samfylkingin er með 16,7% fylgi, sem er svipað og seinast, og Framsóknarflokkurinn mælist með 13,4% fylgi. Hefur fylgi flokksins ekki verið minna síðan í lok árs 2012, að því er segir í fréttinni.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð er með 12,2% fylgi og Píratar eru með 9,2% fylgi, sem er aðeins minna en í síðustu könnun. 

Tæplega sjö prósent aðspurðra segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Heildarúrtaksstærð var 5.588 og þátttökuhlutfall var 59,2 prósent. Vikmörk eru 0,8-1,5 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert