Nálguðust markmið sín

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólaskólakennara, í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólaskólakennara, í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Ómar

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, telur að kennarar hafi nálgast markmið sín býsna mikið. Samkomulagið, sem skrifað var undir síðdegis í dag, feli í sér að verið sé að endurskipuleggja vinnumat kennarastarfsins og hefja vegferð sem sé ekki lokið enn þá.

Eins og greint hefur verið frá skrifuðu framhaldsskólakennarar undir nýjan kjarasamning ríkisins í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Samningurinn nær til októbermánaðar 2016 og felur í sér sex prósent launahækkun.

Aðrar hækkanir eru háðar nýju vinnumati, en þær geta gert það að verkum að hækkunin nemi samtals 29 prósentum yfir samningstímann, að sögn Gunnars Björnssonar, formanns samninganefndar ríkisins.

Það á eftir að leggja samninginn undir atkvæði félagsmanna í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Niðurstaðan á að liggja fyrir 23. apríl næstkomandi og segir Guðríður að viðræðunefndin muni nýta næstu viku í að kynna samninginn.

Þá verður jafnframt haldin sérstök atkvæðagreiðsla um vinnufyrirkomulag kennara eigi síðar en í febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert