Öll rök fyrir því að ljúka málinu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Mér finnst þetta vera mjög athyglisverð skýrsla,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is spurður um hans sýn á skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið sem stofnunin vann fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Samtök atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands.

„Það var okkar vilji sem að þessu stóðum að fræðasamfélagið myndi svolítið rýna þetta ferli, bæði samningaferlið sjálft og hvernig hafi gengið. Og eins líka að reyna að rýna svolítið þessar áleitnu spurningar sem var ósvarað og hvernig þetta blasti við þeim. Reyna að skyggnast á bak við tjöldin. Mér finnst þetta bara gott innlegg hvað það varðar,“ segir Gylfi. Hann bendir á að viðræðurnar við Evrópusambandið til þessa hafi sýnt að komið væri til móts við íslenska hagsmuni. Það hafi allavega verið skoðun samningamanna Íslands.

„Það er kannski það sem mér finnst standa upp úr og í sjálfu sér undirstrika mikilvægi þess að við klárum þessar aðildarviðræður. Það verða náttúrlega engin svör um þessi álitamál nema við spyrjum spurninganna en fyrst og fremst byrjum á að skilgreina hagsmunina. Hvar liggja þeir?“ spyr hann. 

Spurður hvort skýrsla Alþjóðamálastofnunar og skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um sama efni fyrir utanríkisráðuneytið gefi að hans mati nokkuð góða mynd af stöðu málsins segist Gylfi telja að svo sé. 

„Auðvitað má alltaf rýna betur í þetta. En eins og kom fram af hálfu þessara sérfræðinga: Á endanum vitum við ekki hver niðurstaðan verður nema við semjum. Því að svörin verða að verða til í ferlinu. Það er líka ljóst að það er ekkert í þessu ferli sem rökstyður að það eigi að hætta því. Það eru þvert á móti öll rök fyrir því að ljúka þessu máli og leggja það í dóm þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert