Félagslega hliðin fjarverandi

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hvorug skýrsla tekur í raun og veru á samfélagsþróun innan Evrópusambandsins, hvorug skýrsla tekur á hinum félagslegu og pólitísku þáttum. Í hvorugri skýrslunni er fjallað um stærsta viðfangsefni samtímans út frá Íslandi og Evrópusambandinu sem eru umhverfismálin og loftlagsmálin. Þannig að ég sakna þess enn að við fáum breiðari umræðu um Evrópusambandið.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um skýrslu Alþjóðamálastofnunar um umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Vísaði hún þar til skýrslunnar sem og skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um sama efni sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið. Spurningin um inngöngu í Evrópusambandið væri þannig miklu stærri en eingöngu efnahagsleg. Efnahagsmál hafi hins vegar gjarnan verið í forgrunni.

„Þannig að þó að þarna sé ágætisumfjöllun að mörgu leyti bæði um efnahagsmál, EES-samninginn, sjávarútveg og landbúnað þá hefði ég viljað sjá breiðari umfjöllun,“ sagði Katrín. Hún sagði athyglisvert að viðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið komnar lengra en haldið hafi verið fram samkvæmt skýrslunni. Þá væri grundvallarmunur á því að draga umsókn til baka eða gera hlé á viðræðum við sambandið. Ef umsókn væri dregin til baka yrði að hefja umsóknarferli upp á nýtt.

Minnti hún ennfremur á þingsályktunartillögu þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um að áframhaldandi hlé á umsóknarferlinu og þjóðaratkvæði um framhaldið á síðari hluta kjörtímabilsins. Það væri sannfæring allra þingmanna VG að leita ætti eftir leiðsögn þjóðarinnar í málinu.

Samvinnuvettvangur fullvalda ríkja

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, lagði áherslu á í sinni ræðu að Evrópusambandið væri fyrst og fremst samvinnuvettvangur fullvalda ríkja vegna þess að heimurinn væri „uppfullur af vandamálum“. Spurningin sem Íslendingar stæðu frammi fyrir væri hvort þeir vildu verða að fullu aðilar að Evrópusambandinu. Þá hafnaði hann því að atvinnuleysi á evrusvæðinu tengdist evrunni. 

Guðmundur lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að fá Evrópusambandið að málið varðandi afnám gjaldeyrishafta. Þá sagði hann ljóst að sérlausnir hefðu þegar fengist í viðræðum við sambandið. Umræður um Evrópumálin minntu hann á viðræður við rótttæka efahyggjumanninn í heimspekinámi sínu sem efaðist um að allt væri til.

Skautað hratt framhjá evrukrísunni

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagðist telja að skýrsla Alþjóðamálstofnunar skautaði mjög hratt framhjá efnahagsvanda evrusvæðisins. Þar með talið miklu atvinnuleysi innan þess og einkum hjá yngra fólki, hversu lengi svæðið yrði að jafna sig á erfiðleikunum né gríðarlegu innra ójafnvægi innan þess. 

Hvað varðar aðkomu Evrópusambandsins að afnámi hafta benti Frosti á að það þýddi að ríkissjóður Íslands tæki há lán upp á hundruðir eða þúsundir milljarða til þess að losa erlenda kröfuhafa úr gjaldeyrishöftunum. Ekki væri í boði af hálfu sambandsins að fá einhverja styrki frá evrópskum skattgreiðendum til þess. Þá sagði hann rangt að seðlabankar einstakra evruríkja gætu prentað evrur að vild. Þannig hefði seðlabanki Kýpur þurft að leita til Evrópska seðlabankans í þeim efnum þegar efnahagserfiðleikarnir hafi knúið dyra þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert