Níu stór útköll á hálfu ári

Björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa frá því í nóvember sl. verið kallaðir út vegna níu alvarlegra vélsleðaslysa sem hafa orðið víðsvegar um landið. Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá félaginu, brýnir fyrir mönnum að fara að öllu með gát og hafa öryggisbúnað í lagi.

„Það er aldrei of varlega farið,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is. Hann tekur fram að það sé hættulegt að ferðast á vélsleðum á fjöllum; tækin séu öflug og þá geta aðstæður á verið krefjandi og breyst hratt.

„Jaðarferðamennskan er orðin þannig að menn eru farnir að fara hærra, hraðar og lengra sem þýðir það að slysin verða verri og bjarganirnar erfiðari,“ segir Guðbrandur. Vélsleðar séu mjög kraftmikil farartæki sem geti jafnvel náð á að annað hundrað kílómetra hraða á klukkustund.

„Stundum þurfa menn að læra að stoppa og flýta sér hægt,“ segir Guðbrandur.

Öryggismálin til fyrirmyndar hjá LÍV

Guðbrandur tekur fram að Landsbjörg hafi minni áhyggjur af þeim sem hann kallar harða vélsleðamenn, þ.e. einstaklinga sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. „Þeir hafa verið með öryggisbúnaðinn í lagi,“ segir hann og bætir við að stór hluti þeirra sé í Landssambandi íslenskra vélsleðamanna (LÍV).

Guðbrandur segir að LÍV hafi sett öryggismálin á oddinn sem sé til fyrirmyndar og eigi sambandið hrós skilið fyrir það. „Þeir taka öryggismálin mjög alvarlega og reyndir vélsleðamenn eru mjög góð fyrirmynd í dag.“

Hann segir að þetta sé spurning um þekkingu og reynslu. „Menn þurfa að afla sér þekkingar til að til að geta byrjað að öðlast reynslu, og til að koma sér hjá því að lenda í vandræðum þá eiga menn að ferðast með vönum mönnum.“

Guðbrandur tekur hins vegar fram að reynslan ein og sér komi ekki í veg fyrir slys enda nokkur nýleg dæmi um mjög reynda vélsleðamenn - fólk sem er jafnvel með áratuga reynslu - sem hafi lent í slysum.

Erfið og krefjandi björgunarverkefni

„Það hefur stundum verið amast við því að okkar fólk [björgunarsveitarmenn] sé - eins og maður segir innan gæslappa - „að leika sér á vélsleðum“. En það er bara því miður raunin að okkar fólk þarf að elta þá sem eru á öflugum sleðum hátt upp í fjöll við mjög erfiðar aðstæður. Þá þarf það að þekkja tækin sín.“ Björgunarsveitarmenn verði því að æfa sig á þessum björgunartækjum til að geta sinnt slíkum útköllum.

„Þau slys sem við höfum aðallega verið að sjá eru slys þar sem menn keyra á kletta, keyra fram af hengjum, menn renna á ísfossum og falla fram af. Þetta er það sem við höfum séð nýlega.“ Í slíkum slysum komi öryggisbúnaðurinn að litlu gangi.

„Þetta eru mjög erfiðar bjarganir, taka langan tíma og eru mjög mannaflsfrekar,“ segir Guðbrandur um útköll vegna vélsleðaslysa. Hann tekur fram að í flestum tilvikum hafi þyrlur Landhelgisgæslunnar einnig nýst vel við björgunarstörf en stundum séu aðstæður eða veðurskilyrði með þeim hætti að þær nýtast ekki sem björgunartæki. Þá þurfi hinn slasaði oft að bíða mjög lengi og þola afar erfiðan flutning.

Mesta hættan þegar menn aka of hratt

Guðbrandur segir að Landsbjörg vilji sérstaklega vara vélsleðamenn við þrennskonar hættu.

„Í fyrsta lagi þá er það rötunin, að menn séu ekki að týnast á sleðum. Það má segja að með GPS-væðingunni þá heyrir það til undantekninga að við séum að leita að vélsleðamönnum. Önnur hætta, og kannski mesta hættan, er það að menn eru að keyra of hratt miðað við aðstæður - en það getur verið að fimm kílómetrar á klukkkustund sé of hratt miðað við aðstæður - og þá lenta menn í því að keyra á hluti eða fram af. Þá erum við komin með það sem kallast háorkuslys. Síðan er það þriðja hættan sem hefur verið sjaldgæf sem betur fer, en það er einfaldlega vegna þess að vélsleðamenn hafa tekið upp hjá sér að mennta sjálfa sig og vini sína í snjóflóðavörnum. Þar hefur verið lítið um slys sem betur fer,“ segir hann.

Menn mega hins vegar ekki sofna á verðinum og því sé mikilvægt að muna eftir hinni heilögu þrenningu sem sé snjóflóðaýlir, skófla og snjóflóðastöng - auk þeirrar þekkingar sem til þurfi að beita þessum verkfærum rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert