Fátækt íslenskra barna aukist frá hruni

Á Íslandi jókst hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna …
Á Íslandi jókst hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna um 2,8% frá 2008 til 2012. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á Íslandi jókst hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna um 2,8% frá 2008 til 2012. Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hefur fátækt og ójöfnuður barna á Íslandi aukist frá hruni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnaheilla - Save The Children í Evrópu þar sem fátækt barna í álfunni er kortlögð. Skýrslan er samstarfsverkefni 12 Evrópuþjóða en tekur til landanna 28 í Evrópusambandinu auk Íslands, Noregs og Sviss. Skýrslan verður kynnt í dag.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að mörg börn búa við óviðunandi aðstæður hvað varðar húsnæði og er húsnæðiskostnaður mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátæktar, heldur einnig afleiðing.  Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fátæktin flyst á milli kynslóða.

Tæplega 27 milljónir barna í Evrópu eiga á hættu að búa við fátækt eða félagslega einangrun, ójöfnuður hefur aukist og er barnafátækt veruleiki í öllum ríkjum Evrópu, einnig í hinum norrænu velferðarríkjum.

Eitt fátækt barn einu of mikið

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga öll börn að hafa sömu tækifæri til að lifa og þroskast og ekki má mismuna börnum vegna stöðu, bakgrunns eða uppruna þeirra eða fjölskyldunnar. Börn bera ekki ábyrgð á þeirri stöðu sem þau eru í. Fátækt og félagsleg einangrun eykur hættuna á að börn njóti ekki þessara réttinda og er því barnafátækt í raun brot á mannréttindum barna.

Barnaheill segir mikilvægt að stjórnvöld marki stefnu til að tryggja börnum þau réttindi sem þeim ber, tryggja lágmarksframfærslu allra barna og þjónustu við börn. Gjaldfrjáls þjónusta samfélagsins við börn er lykilatriði til að jafna stöðu þeirra og minnka líkurnar á fátækt og félagslegri einangrun. Skólar eru hornsteinn jafnræðis barna á Íslandi og því mikilvægt að standa vörð um skólakerfið,  tryggja jafnan aðgang að barnagæslu á viðráðanlegu verði og draga úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólum sem er langt fyrir ofan meðaltal í Evrópu, segir m.a. í niðurstöðum skýrslunnar. 

Af þessum sökum leggja Barnaheill - Save the Children á Íslandi mikla áherslu á að unnið sé með barnafátækt út frá forsendum mannréttinda barna og réttinda þeirra óháð stöðu þeirra eða foreldra þeirra.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hvetja stjórnvöld hér á landi til að móta stefnu til að útrýma barnafátækt á Íslandi. „Eitt barn sem býr við fátækt og félagslega einangrun er einu barni of mikið. Mikilvægt er að líta á fjármagn sem fer í þjónustu við börn sem fjárfestingu til framtíðar,“ segir m.a. í niðurstöðum skýrslunnar.

Matvælum úthlutað hjá Mæðrastyrksnefnd.
Matvælum úthlutað hjá Mæðrastyrksnefnd. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Eitt barn sem býr við fátækt og félagslega einangrun er …
Eitt barn sem býr við fátækt og félagslega einangrun er einu barni of mikið. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert