Lögbannið tekið fyrir á morgun

Krafa ríkisins um lögbann á gjaldtöku við Geysi verður tekin fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi á morgun í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í gærmorgun að embættinu beri að framfylgja lögbannskröfunni. Sýslumaðurinn hafði áður hafnað kröfunni og kærði fjármálaráðneytið þá ákvörðun.

Væntanlega verður niðurstaða fyrirtökunnar að sett verði á lögbann að sögn Ívars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns og lögmanns ríkisins í málinu. Í kjölfarið þurfi hann fyrir hönd ríkisins að höfða mál að nýju til staðfestingar á lögbanninu. Ef Landeigendafélag Geysis ákveður að kæra úrskurð héraðsdóms segir Ívar að hann væri hugsanlega reiðubúinn að fallast á að lögbannið yrði ekki sett á strax þar til niðurstaða fengist í það að því tilskyldu að gjaldtöku yrði hætt á meðan.

„Við viljum auðvitað reyna að vinna þetta í sátt við þá. Velja þær leiðir sem eru bestar fyrir málstað beggja aðila. Ef það er hægt,“ segir Ívar. Hins vegar liggi ekkert fyrir annað á þessari stundu en að fyrirtaka verði í málinu á morgun hjá sýslumanni og líklegasta niðurstaða hennar sé að lögbann verði sett á gjaldtökuna. Aðspurður um mögulegt skaðabótamál ríkisins á hendur Landeigendafélaginu segir Ívar ekkert hafa verið skoðað í þeim efnum enda alls ótímabært.

Eins og mbl.is hefur fjallað um hefur gjaldtöku við Geysi þegar verið hætt í kjölfar úrskurðar héraðsdóms. Að sögn Garðars Eiríkssonar, talsmanns Landeigendafélags Geysis, hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort úrskurðurinn verður kærður. Aðspurður hvort gjaldið verið endurgeitt neitar hann því enda taki úrskurðurinn ekki á lögmæti gjaldtökunnar. Spurður hversu mikið gjaldtakan hafi skilað segir Garðar að hann gefi það ekki upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert