Styðja baráttu háskólakennara

Stúdentar mótmæltu við fjármálaráðuneytið í gær.
Stúdentar mótmæltu við fjármálaráðuneytið í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, lýsir yfir fullum stuðningi við kennara Háskóla Íslands í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Röskva sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis, vegna fréttar sem birtist í Fréttablaðinu í dag, undir fyrirsögninni „Stúdentar eru orðnir reiðir við kennarana“.

Í ályktun Röskvu segir að það að beina reiðinni að kennurum afvegaleiði umræðuna frá hinu raunverulega vandamáli, sem sé gífurlegur niðurskurður til menntamála síðastliðin ár.

„Tímasetning verkfallsins er vissulega óþægileg en skapar augljósa pressu á ríkið til samninga. Fráleitt er að áfellast kennara fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að boða til verkfalls,“ segir í ályktun Röskvu.

Röskva telur að lausnin á þeirri stöðu sem upp er komin liggi í bættri forgangsröðun fjárveitinga ríkisins. Samtökin skora á ríkisstjórn Íslands „að láta af sérhagsmunagæslu sinni í þágu stóreignafólks og forgangsraða heldur í þágu menntunar og velferðar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert