Vonbrigði og sorg í grunnbúðunum

Ingólfur Axelsson í grunnbúðum Everest.
Ingólfur Axelsson í grunnbúðum Everest. Af Facebook

„Við ætlum að halda áfram leiðangrinum ef það er mögulegt,“ segir Ingólfur Axelsson  fjallgöngumaður sem er í grunnbúðum Everest og stefnir á hæsta tind heims. „Staðan er mjög viðkvæm en við erum að vona að við fáum til baka tvo sterkustu sjerpana okkar.“

Á föstudag féll snjóflóð í hlíðum Everest, skammt frá grunnbúðunum. Þrettán leiðsögumenn, svokallaðir sjerpar, létu lífið í flóðinu og þriggja er enn saknað. Mennirnir voru að bera búnað fjallgöngumanna upp í fjallið snemma morguns er flóðið féll. Sjerparnir sem starfa við leiðsögn um fjallið krefjast nú betri launa og hærri líftrygginga. 

Leiðsögufyrirtækið sem Vilborg Arna Gissurardóttir er með hefur ákveðið að hætta við ferðir á Everest það sem eftir er ársins. Hún segist í samtali við mbl.is nú skoða sína stöðu og hvort hún muni halda áfram göngunni á tindinn. 

„Stemningin meðal fjallgöngumannanna í grunnbúðum er líklega eins og á Þjóðhátíð ef henni væri hætt á laugardegi,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is. 

Hann segir að mörg liðanna séu að ganga á nálæga tinda til hæðaraðlögunar. Það sé hann m.a. að gera. Hópurinn hans fari annan hvern dag upp í PumaRi, sem er í 5.900 metra hæð. Rætt sé um að fækka slíkum ferðum vegna flóðanna.

Á meðan er nokkur fjöldi leiðangursmanna að pakka saman búnaði sínum. „Þeir pakka saman í fullri óvissu um hvort þeir muni nokkurn tímann snúa aftur til að klífa drottningu allra fjalla.“

Ingólfur segir að sumir velti því einnig fyrir sér hvort þeir fái endurgreitt, að minnsta kosti hluta af þeim 5-13 milljónum króna sem ganga á fjallið kosti hvern og einn. „Og einnig hvort þeir 100 klukkutímar sem hafa farið í að rækta líkama og andlegu hliðina muni nýtast seinna.“

Spurður hvernig honum líði svarar Ingólfur: „Mér líður 100% en að sjálfsögðu leitar hugurinn til þeirra sem hafa misst félaga hérna á Everest.“

Ingólfur segir að í gegnum tíðina hafi fólk látið lífið á Everest. Enginn hafi hins vegar búist við slíkum hamförum og þeim sem urðu á föstudag. 

Hann segir að næstu dagar muni leiða í ljós með hvaða hætti framhaldið verði hjá sér. 

Frá því að Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu fyrstir tindinn árið 1953 hafa yfir 300 manns, aðallega leiðsögumenn, týnt lífi á fjallinu.

Frétt mbl.is: Hóta að hætta öllum ferðum á fjallið

Dóttir sjerpans Ang Kazi, sem lést í snjóflóðinu, kveikir á …
Dóttir sjerpans Ang Kazi, sem lést í snjóflóðinu, kveikir á olíulampa til að minnast hans. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert