Fyrri ríkisstjórn „úti á túni“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að fyrri ríkisstjórn hafi verið „algjörlega úti á túni“ þegar kom að álagningu veiðigjalda á útgerðina. Það sé nú að koma betur og betur í ljós.

„Það var boðað að á árunum 2013, 2014, 2015 og 2016 myndu gjöldin liggja á bilinu átján til tuttugu milljarðar. En nú er öllum ljóst að gjaldið, eins og það var í fyrra, myndi ekki geta gilt á næsta fiskveiðiári án þess að það myndi hafa verulega auknar byrðar fyrir útgerðina í för með sér,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Hann fagnaði því að nú væri búið að þróa betra tæki til þess að dreifa veiðigjaldinu í samræmi við það hvernig afkoman væri í veiðum á einstökum fisktegundum.

„Staðreyndin er sú að útgerðin er eina starfsemin í landinu sem greiðir þetta sérstaka gjald og því ber að fagna að við séum nú í fyrsta sinn komin með tæki til þess að dreifa álagningu gjaldsins í einhverju samræmi við afkomuna hjá útgerðinni sjálfri eftir tegundum,“ sagði hann.

Ekki stórkostlegar áhyggjur af tekjutapi

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði hann meðal annars að því hvernig ríkisstjórnin kæmi til með að mæta tekjutapi af lækkun veiðigjalda á þessu ári.

„Ég hef í sjálfu sér ekki stórkostlegar áhyggjur af því tekjutapi sem verður vegna verri afkomu útgerðarinnar strax á næsta ári. Við skulum hafa það í huga að einn til tveir milljarðar eru langt innan við eitt prósent af tekjum ríkisins. En þó er það slæmt fyrir þjóðarbúið í heild sinni ef afkoman í greininni er að versna og við þurfum þó að horfa til annarra greina og þátta til að vinna upp tekjutapið,“ sagði Bjarni.

Aðalatriðið væri þó að gjaldið væri nú í einhverjum tengslum við afkomu útgerðarinnar eftir tegundum.

Árni Páll tók undir með fjármálaráðherra að mikilvægt væri að fá tæki til þess að leggja gjaldið á með eins góðum hætti og mögulegt er. „Við í Samfylkingunni viljum reyndar að það sé lagt á í frjálsum viðskiptum á markaði. Það er auðvitað besta leiðin. Þannig að verðlagningin á veiðiheimildum ráði gjaldinu sem útgerðin greiðir á hverjum tíma. Þá er tryggt að þjóðin deili kjörum með sjávarútveginum,“ sagði hann.

Hann benti jafnframt á að árið 2012 hafi verið mesta árangursár í sjávarútvegi í íslenskri sögu, þrátt fyrir aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. „Það er rétt að hafa það í huga áður en menn fara að endurskrifa söguna til þess að réttlæta lækkun á auðlindagjöldum, sem er auðvitað eðlilegt að grein sem hefur ókeypis aðgang að auðlindum greiði,“ sagði hann jafnframt.

Lét tækifærið fram hjá sér fara

Hann spurði einnig Bjarna að því af hverju núverandi ríkisstjórn hefði ekki lagt gjald á makrílveiðar.

Bjarni benti á að fyrri ríkisstjórn hefði ekki heldur lagt gjald á úthlutun makrílsins. „Hún lét það tækifæri fram hjá sér sigla þegar makríl var úthlutað til útgerðarinnar án gjaldtöku,“ nefndi hann.

„Það hefur ekki verið á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar að hefja slíka gjaldtöku, en hins vegar hefur okkur verið þeim mun meira í mun að sú gjaldtaka sem ríkið tekur til sín vegna aflaheimilda sé í einhverjum  tengslum við afkomuna í viðkomandi veiðum,“ sagði hann.

„Hér er nefnt að 2012 hafi verið sérstaklega gjöfult fyrir útgerðina. En við skulum hafa það þá í huga að gjaldið, eins og það var áður lagt á, var í engum tengslum við það hvernig afkoman var hverju sinni. Það var bara krónutala per þorskígildi,“ sagði Bjarni.

Fyrri ríkisstjórn hefði ekki velt afkomunnni í veiðum á einstökum tegundum neitt sérstaklega fyrir sér.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert