Alvarlegur kynjahalli í kirkjunni

Mikill meirihluti sóknarpresta þjóðkirkjunnar eru karlar.
Mikill meirihluti sóknarpresta þjóðkirkjunnar eru karlar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Konur eru aðeins um fjórðungur sóknarpresta innan þjóðkirkjunnar og í þremur stærstu prófastsdæmunum eru aðeins 19% presta konur. Félag prestvígðra kvenna segir það hag kirkjunnar að hlutföll karla og kvenna í störfum og ábyrgðarstöðum séu jöfn.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags prestvígðra kvenna, sem haldinn var í Langholtskirkju í gær. Félagið hvetur sóknarnefndir, valnefndir og kirkjufólk til að taka mið af jafnréttislögum og jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar.

Á landinu öllu eru 90 sóknarprestsembætti. Þar af eru prestsvígðar konur aðeins í 23 embættum, eða um fjórðungur sóknarpresta. Þrjú stærstu prófastsdæmin eru á suðvesturhorninu og þar er 31 sóknarprestsembætti, þar af aðeins sex konur.

Félag prestvígðra kvenna minnir á að þegar valið er í embætti prests eða sóknarprests sé ekki nóg að horfa til sóknarinnar einnar, heldur beri einnig að taka mið af kynjahlutfalli innan kirkjunnar allrar, þar með talið í pófastsdæminu og á samstarfssvæðinu.

„Það er fagnaðarefni að í ár eru 40 ár frá því að fyrsta konan vígðist til prestsembættis innan þjóðkirkjunnar. Það hefur auðgað og eflt kirkju og kristni í landinu að hafa prestvígt fólk af báðum kynjum. Það er hagur kirkjunnar að hlutföll karla og kvenna í störfum og ábyrgðarstöðum séu jöfn,“ segir í ályktuninni.

Gengið til prestastefnu.
Gengið til prestastefnu. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert