Landspítalinn snýst um almannaheill

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að oft sé deilt um stór þjóðþrifaverkefni. Á ársfundi spítalans, sem haldinn var á Hótel Nordica fyrr í dag, rifjaði hann upp skemmtilega sögu þegar sjálfur Landspítalinn var byggður á árunum fyrir 1930.

„Yfirskrift fundarins í dag er „Þjóðarsjúkrahús á tímamótum“. Í því samhengi er gagnlegt að líta til baka, til þess tíma þegar verið var að byggja Landspítalann, á árunum fyrir 1930.

Þá, ekki síður en nú, var mikið rætt um þörfina fyrir uppbyggingu Landspítala og sýndist sitt hverjum. Ýmsar skemmtilegar hugmyndir komu líka fram. Þannig var haldinn troðfullur, almennur fundur í Nýja Bíói 15. apríl 1925 þar sem rætt var um framkvæmdir við Landspítala, en þetta var fimm árum áður en spítalinn opnaði og ári áður en fyrsta skóflustungan var tekin,“ sagði Páll.

Sjúklingar í öllum krókum og kimum

„Frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir, útgefandi og ritstjóri, stóð þar upp og kom með þá uppástungu að Alþingi skyldi ekki haldið nema annað hvert ár, en þingkostnaður hitt árið yrði lagður í byggingasjóð spítalans. Hún sagði að það sparaði fé og drægi um helming úr hávaða vegna málsins.

Þegar svo spítalinn loks reis, þá töldu menn hann alltof stóran og spáðu því að mörg ár tæki að fylla hann.“

Svo hafi hins vegar ekki farið. Strax fjórum mánuðum eftir að Landspítalinn var opnaður hafi verið komnir hundrað sjúklingar á spítalann og þeir yfirlagnir í alla króka og kima. „Nokkuð sem enn er óbreytt,“ benti Páll á.

Oft deilt um stór þjóðþrifaverkefni

„Lærdómurinn af þessu er sá að það er oft deilt um stór þjóðþrifaverkefni. Það var svo sannarlega deilt um þörfina og stærðina á Landspítalanum fyrir níutíu árum. Alveg eins og deilt hefur verið um flestar stærri byggingar á Íslandi, ef ekki um þörfina fyrir þær, þá um staðsetningu og útlit þeirra.

Það var líka svo sannarlega deilt um lagningu Hvalfjarðarganga á sínum tíma, svo annað dæmi sé tekið, og eiga þó þessi tvö verkefni þó það sameiginlegt að enginn gæti í dag haldið því fram að þetta hafi ekki verið þjóðþrifaverkefni sem snerust um almannaheill og framfarir,“ sagði Páll og bætti loks við:

„Því Landspítalinn snýst um almannaheill og Landspítalinn er sannkallað þjóðarsjúkrahús.“

Frá ársfundi spítalans í dag.
Frá ársfundi spítalans í dag. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert