Vandinn snýr ekki að fjármögnuninni

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalans í dag.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalans í dag. mbl.is/Eva Björk

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að vandinn við byggingu nýs Landspítala snúi ekki að fjármögnun framkvæmdarinnar. Hægt sé að ganga frá lánsfjármögnun nýja spítalans á nokkrum dögum.

„Vandinn snýr að því að ríkissjóður í núverandi stöðu hefur því miður ekki bolmagn til að standa undir fjármagnskostnaði og greiða til baka það fé sem hann hefur fengið að láni,“ sagði ráðherrann á ársfundi Landspítalans sem haldinn var fyrr í dag.

Hann sagði að ríkisstjórnin hefði haldið byggingaráformunum lifandi, þó svo að hún hefði einsett sér að leggja fram hallalaus fjárlög. „Það er vissulega ekki í digra sjóði ríkisins að sækja til að fjármagna tugi milljarða framkvæmdir, allra síst þegar við erum að reyna að ná tökum á ríkisfjármálunum,“ sagði Kristján Þór.

Hann sagðist setja fyrirvara við fullyrðingar þess efnis að standa megi undir afborgunum lána með hagræðingu í rekstri spítalans. Ástæðan væri sú að 70 til 80% af rekstri spítalans væru laun til starfsfólks.

Ekki eingöngu hægt að hagræða

„Auðvitað mun nást töluverð hagræðing með nýjum spítala þegar fram líða stundir, bæði vegna minna viðhalds og rekstrarkostnaðar, og ekki síst þegar ekki þarf lengur að reka tvöfaldar vaktir vegna þess að bráðastarfsemin verður komin á einn stað.

En við megum ekki falla í þá gryfju að ofmeta þennan þátt og ég endurtek efasemdir um það að standa megi undir lánakostnaði framkvæmdanna með sparnaði í launakostnaði heilbrigðisstarfsfólks,“ sagði Kristján Þór.

„Ég tel því augljóst að við verðum að fjármagna byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss með öðrum hætti en þeim að gera eingöngu út af væntanlega hagræðingu.“

Hann sagði að þegar hann hefði tekið við embætti heilbrigðisráðherra í fyrra hefði hann lagt megináherslu á að forgangsraða í rekstri ríkisins. „Ég held því fram að við Íslendingar höfum ekki efni á því að gera allt sem hugurinn stendur til, en að láta á sama tíma reka á reiðanum í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Losi um eignir í fyrirtækjum og fasteignum

Þess vegna sé nauðsynlegt að forgangsraða í ríkisrekstrinum.

Þannig tel ég að við eigum að nálgast þetta mikla verkefni, sem er bygging þjóðarsjúkrahússins,” sagði hann.

Sameiginlega ættum við Íslendingar sem betur fer töluvert miklar eignir sem við hefðum bundið sem fjármuni í fyrirtækjum og fasteignum. „Ég tel tímabært að við ræðum það opinskátt og án upphrópana hvort ekki sé skynsamlegt að losa um eitthvað af þessum eignum og færa þá fjármuni, nýta og festa með þeim hætti að byggja þjóðarsjúkrahúsið.

Þannig teldi ég að við værum að forgangsraða í þágu allra landsmanna.“

Kristján Þór sagðist vera sannfærður um það að mikill meirihluti landsmanna myndi styðja hugmyndir af þessu tagi.

„Niðurstaðan er skýr“

Í erindi sínu benti ráðherrann jafnframt á að ákvörðun um staðsetningu Landspítalans liggi nú þegar fyrir. „Og ég læt ekki hvarfla að mér að hefja að nýju umræðu um það mál með öllum þeim töfum sem því fylgir. Niðurstaðan er skýr. Deiliskipulag þess efnis hefur verið staðfest og nýr Landspítali verður byggður upp á þeim stað í samræmi við þær áætlanir sem fyrir liggja.“

Þegar Kristján tók við embættinu var nýbúið að leggja fram tímasetta áætlun um framkvæmdir og kostnað vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. „Í ljósi stöðu ríkissjóðs fól ég stjórn nýja Landspítalans að rýna þessa áætlun og huga að því hvort unnt væri að áfangaskipta verkefninu enn frekar en áður var ráðgert.

Þessi rýnivinna stendur nú yfir og jafnframt bauð Háskóli Íslands fram aðstoð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands við að skoða kostnað og ábata af byggingu nýs spítala fyrir þjóðarbúið. Við teljum nauðsynlegt að bíða þessarar úttektar áður en ákvarðanir verða teknar um næstu skref,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Frá ársfundinum í dag.
Frá ársfundinum í dag. mbl.is/Eva Björk
mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert