Frostlaust á Íslandi

Allt sem tengist Elsu selst upp undir eins.
Allt sem tengist Elsu selst upp undir eins.

Teiknimyndin Frosinn, Frozen, virðist hafa snert við hjörtum íslenskra barna því varningur tengdur myndinni er uppseldur í nær öllum leikfangabúðum landsins. Æðið hefur gripið fleiri en Íslendinga, því allt sem tengist teiknimyndinni hefur verið hreinsað út úr vöruhúsi Toys'R'us á Norðurlöndunum.

„Þetta er alveg uppselt hjá okkur og í okkar vöruhúsi sem sér um 270 verslanir á Norðurlöndunum,“ segir Sæunn Ósk Sæmundsdóttir, verslunarstjóri Toys'R'us á Smáratorgi. Hún segir vinsældirnar gífurlegar. „Innkaupastjórinn okkar er í óðaönn að reyna að tryggja okkur eins mikið magn og hægt er.“

Sæunn segir von á smærri sendingu með varningi úr Frosinn í júní en stærri í ágúst. „Það ætti enginn að fara út mjög svekktur þegar þetta loksins kemur,“ segir hún.

Elsa rýkur út

Frosinn er mest sótta teiknimynd allra tíma og hefur halað inn rúman milljarð bandaríkjadala. Teiknimyndin er að hluta til byggð á ævintýri HC Andersens um Snædrottninguna og fjallar að grunni til um baráttuna á milli góðs og ills. Aðalpersónurnar eru systurnar Anna og Elsa, sem bundin er þeim álögum að allt sem hún snertir verður að snjó og ís. Sæunn segir allt sem tengist Elsu hafa rokið út. „Við áttum meira að segja smávegis af veggmyndum með mynd af henni sem við vorum að gefa og það voru alveg farnar hópferðir til þess að ná þeim,“ segir hún. „Ég held að þessi mynd og boðskapur hennar hafi komið öllum á óvart. Þetta er að gera alveg frábæra hluti og það er mjög leiðinlegt að geta ekki orðið við eftirspurninni.“

Vel á þriðja þúsund eintaka af teiknimyndinni á dvd hafa selst í Elko og samkvæmt upplýsingum frá versluninni hefur ekkert annað afþreyingarefni selst svo vel. Þær myndir sem áður töldust söluháar ná ekki í skottið á Frosinn.

Ævintýrið hlaut meðal annars Óskarinn í ár sem besta teiknimyndin og fyrir besta lagið, Let it go.

Grætt á Ebay

Vinsældirnar einskorðast ekki við Ísland því Frosinn-varningur hefur reglulega selst upp í Disney-verslunum. Disney gaf út yfirlýsingu á dögunum þar sem greint var frá því að nokkurs konar kvótakerfi hefði verið tekið upp á Frosinn-varning - hver viðskiptavinur mætti einungis kaupa tvær vörur í einu. Þá mætti hver viðskiptavinur einungis kaupa einn Elsu-búning.

Einhverjir hafa hugsað sér gott til glóðarinnar og selt hina ófáanlegu Elsu-búninga á Ebay. Kjólar sem seldir höfðu verið í takmörkuðu upplagi og kostuðu um 150 dollara úti í búð hafa verið seldir á um þúsund dollara á Ebay. Ódýrari búningar sem kostuðu um 20 dollara hafa hins vegar verið seldir á 300 dollara.

Frosinn hlaut óskarinn í ár sem besta teiknimyndin.
Frosinn hlaut óskarinn í ár sem besta teiknimyndin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert