Kjörsókn fer heldur hægt af stað

mbl.is/Eggert

Kjörsóknin fór heldur hægt af stað í morgun samanborið við sveitarstjórnarkosningarnar fyrir fjórum árum. Formenn kjörstjórna eru þó bjartsýnir á að kjörsóknin muni glæðast eftir hádegi.

Í Reykjavík höfðu klukkan 11 í dag 5.287 manns kosið sem er 5,84% af þeim 90.487 sem eru á kjörskrá. Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010 höfðu alls 4.987 manns kosið. Það er 5,71% af þeim 85.781 borgarbúa sem voru þá á kjörskrá.

Klukkan 11 höfðu 980 kjósendur greitt atkvæði á kjörstað í Kópavogi. Kjörsókn var þá 4,2%. Kjörsóknin var hins vegar 5,5% á sama tíma fyrir fjórum árum.

Í Hafnarfirði höfðu alls 817 manns, eða 443 karlar og 374 konur, kosið klukkan 11. Það er 4,1% kjörsókn. Fyrir fjórum árum var kjörsóknin 4,9%.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórninni í Garðabæ höfðu 455 manns kosið þar klukkan 11. Kjörsóknin var þá 4,4%. Aftur á móti var kjörsóknin 5,72% á þessum tíma í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010 og 6,8% í Alþingiskosningunum í fyrra.

Á Seltjarnarnesi fengust þær upplýsingar að 169 manns hafi kosið klukkan 11. Það er um fimm prósent af þeim 3.361 manns sem er á kjörskrá. 233 utankjörstaðaratkvæði eru komin í hús en þau voru 189 fyrir fjórum árum. Er kjörsóknin á svipuðum slóðum og hún var þá.

Kjörsóknin fer heldur hægt af stað á Ísafirði en um ellefuleytið var hún tæplega 8%. Þau erum hálfu prósenti minni kjörsókn en í sveitarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum. Hildur Halldórsdóttir, formaður kjörstjórnar þar á bæ, er þó bjartsýn á að kjörsóknin glæðist eftir hádegi.

Í Vestmannaeyjum fer kosning betur af stað en árið 2010, að sögn Jóhanns Péturssonar, formanns kjörstjórnar.

Klukkan 11 höfðu 4,9% kosið, en 3.171 er á kjörskrá. Árið 2010 höfðu 4,3% kosið á sama tíma en 5,1% árið 2006 og 5,9% árið 2009.

Kjörfundur stendur yfir til klukkan 22 í kvöld. Flokkun atkvæða hefst um áttaleytið í kvöld og er von á fyrstu tölum um 22.10.

Í Snæfellsbæ hefur kjörsókn verið dræm í morgun, að sögn Hjálmars Kristjánssonar, formanns kjörstjórnar. Kjörfundur hófst klukkan tíu í morgun.

Um 16% hafa kosið í Borgarbyggð en þar eru 2.598 á kjörskrá. Að sögn Hilmars Más Arasonar hafa utankjörfundaratkvæði að mestu leyti borist. Heldur færri hafa kosið nú en fyrir fjórum árum, en þá höfðu um 18% kosið.

7,81% höfðu kosið í Árborg klukkan 11 í morgun, en þar eru 5.723 á kjörskrá. Að sögn Ingimundar Sigurmundssonar, formanns kjörstjórnar, fer kosningin heldur hægar af stað en í síðustu sveitarstjórnarkosningum, en 8,56% höfðu kosið á sama tíma árið 2010 og 9,32% árið 2006.

Í Mosfellsbæ fer kosningin einnig rólega ef stað og er heldur dræm kosning að sögn Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, formanns kjörstjórnar. Klukkan 11 höfðu 5% kosið en 6440 íbúar eru á kjörskrá. 

5,3% höfðu kosið í Fjarðabyggð klukkan 11 í í morgun en þar eru 3.362 á kjörskrá. Í fyrra höfðu 5,9% kosið á sama tíma. 

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert