Brunuðu á móti sjúkrabílnum

Hin ellefu ára gamla Kristrún Bender var hætt komin í vetur þegar hún fékk alvarlega blóðeitrun á heimili sínu í Mosfellsdal skömmu eftir að hún hafði greinst með krabbamein. Foreldrar hennar brunuðu með hana á móti sjúkrabíl sem þau mættu á Korputorgi. Kristrún hætti að anda um stund og Hörður Bender, faðir hennar, segir það hafa verið hræðilega lífsreynslu að keyra með líflaust barnið til móts við sjúkrabílinn.

Síðan hefur bati hennar verið ótrúlegur en hún stóð uppi sem sigurvegari í Gæðingakeppni Hestamannafélagsins Harðar í barnaflokki um síðustu helgi og er að fara að keppa fyrir hönd félagsins á Landsmóti hestamanna sem hefst í lok mánaðarins.

mbl.is heimsótti Kristrúnu á heimili hennar á Hraðastöðum í Mosfellsdal í vikunni þar sem hún hefur náð vopnum sínum á undraverðum hraða þó hún eigi eftir að vera í lyfjameðferð næsta eitt og hálfa árið. Hörður Bender, faðir Kristrúnar, segir hana eiga í afar sérstöku sambandi við dýrin á bænum sem skynji veikindi hennar og komi fram við hana samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert