Segir lögreglumenn brjóta lög

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson fer mikinn í grein sem hann ritar í Fréttablaðið og birtist í dag. Þar nafngreinir hann tvo lögreglumenn, segir þá óheiðarlega, rannsaka mál út frá sektinni einni og með því brjóta lög. Þá segir hann „kappsama“ saksóknara hættulega samfélaginu.

Tilefni skrifa Jóns Ásgeirs er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í Aurum-málinu svonefnda. Í því var Jón Ásgeir sýknaður en allar líkur eru á því að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. „Ég held að á þessum tíma hafi ég verið sakaður um allar tegundir viðskiptabrota sem til eru. Út úr þessu hefur ekkert komið miðað við allar þær sakir, sem á mig hafa verið bornar.“

Jón Ásgeir nefnir hins vegar ekki í grein sinni að hann hlaut þriggja mánaða skilorðsbundin dóm í Baugsmálinu og tólf mánaða skilorðsbundinn dóm í skattahluta Baugsmálsins. Í skattahlutanum var Jóni Ásgeiri einnig gert að greiða 62 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs.

„Koma sekt á menn með öllum tiltækum ráðum“

Í grein sinni segir Jón Ásgeir að í tólf ár hafi tveir menn hjá ríkislögreglustjóra og svo sérstökum saksóknara farið fremstir í flokki gegn sér. „Ég tel rétt að þeir séu nafngreindir. Þetta eru lögreglumennirnir Grímur Grímsson og Sveinn Ingiberg Magnússon. Ég leyfi mér að vona að fleiri jafn óheiðarlegir lögreglumenn fyrirfinnist ekki hér á landi. Ég tel þá vera uppvísa að því að leyna mikilvægum gögnum við rannsókn málanna og hafa snúið út úr framburðum annarra sem hafa verið bornir undir mig. Mér finnst þeir rannsaka mál út frá sektinni einni saman. Með þessu brjóta þeir lög. Hvort brotin hafa þann tilgang að þóknast yfirmönnum þeirra, skal ósagt látið – en líkur standa til þess.“

Hann segist einnig hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að tjá sig hjá embætti sérstaks saksóknara og ræður öðrum frá því að svara spurningum rannsakenda við embættið. „Um leið og starfsmenn Sérstaks saksóknara eru búnir að afla sér heimilda til þess að hlera síma, ryðjast inn á heimili, handtaka fólk og hafa rótað í nærbuxnaskúffu á heimili hins grunaða þá er embættið komið í þá stöðu að þurfa að koma sekt á menn með öllum tiltækum ráðum. Kappsamir saksóknarar, sem verða að verja fyrri gerðir sínar á rannsóknarstigi, eru hættulegir samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert