Gylfi gefur kost á sér til endurkjörs

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. mbl.is/Eggert

Gylfi Arnbjörnsson, sem verið hefur forseti ASÍ frá árinu 2008, tilkynnti miðstjórn Alþýðusambandsins í dag að hann hefði ákveðið að bjóða sig fram til endurkjörs forseta á þingi ASÍ í október.

Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Þar segir að Gylfi hafi sent starfsmönnum ASÍ tölvupóst í dag og er hann svohljóðandi:

„Ég sendi ykkur þennan póst til að gera ykkur grein fyrir því að ég hef ákveðið að gefa enn og aftur kost á mér sem forseti Alþýðusambandsins á þinginu í haust. Aldrei þessu vant vafðist það aðeins fyrir mér eftir þennan stormasama vetur hvort ég ætti að gera það eða hvort komið væri að því að sinna einhverju öðru. Niðurstaða mín var að mér finnst þetta ennþá gaman, ég vakna á morgnana og hlakka til að fara í vinnuna og sinna þeim verkefnum sem eru framundan, svo erfið sem þau kunna að verða, þau kveikja virkilega í mér. Það er síðan þingfulltrúanna að ákveða hvort eftirspurn er eftir þessu framboði, það kemur þá bara í ljós,“ skrifar Gylfi.

Þá kemur fram, að Signý Jóhannesdóttir, varafoseti ASÍ, hafi við sama tilefni tilkynnt að hún hyggðist ekki bjóða sig fram til varaforseta í haust en hún hefur gengt því embætti í 4 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert