Erfitt fyrir dómara að svara ásökunum

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands. mbl.is

Skiljanlegt er að sakborningur eða aðilar tengdir honum reyni að koma höggi á dómara og rýra trúverðugleika hans. Erfitt er hinsvegar fyrir dómara að stíga fram og gera nánari grein fyrir sinni niðurstöðu. Þetta segir Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.

Í morgun var lögð fram kæra af hálfu dótturfélags Samherja á hendur Ingveldi Einarsdóttur, hæstaréttardómara, vegna heimildar sem hún veitti til húsleitar sem héraðsdómari í mars 2012.

Nýtt og óþekkt stig í svona aðgerðum

Það leiðir af stöðu og hlutverki dómara að þeir tjá sig um sínar niðurstöður í úrlausnum dóma. Fyrir þá er vandkvæðum bundið að stíga fram og gera nánari grein fyrir úrlausnum sínum á opinberum vettvangi, að sögn Skúla.

„Það kann að vera skiljanlegt að sakborningur eða aðilar tengdir honum reyni að koma höggi á dómara og rýra trúverðugleika dómarans og jafnvel dómstóla með því að hafa uppi ýmis konar ásakanir, en á sama tíma er erfitt fyrir viðkomandi dómara að svara þessum ásökunum,“ segir Skúli.

Skúli segir að samkvæmt gildandi reglum geti hver sá sem telur dómara hafa gert á hlut sinn kvartað til nefndar um dómarastörf. „Það eru til önnur úrræði og vægari en kæra. Það er nýtt og óþekkt stig í svona aðgerðum að kæra dómara til lögreglu fyrir brot í opinberu starfi. Í þessu máli er um að ræða atriði sem hefðu betur átt heima til dæmis í kvörtun til umræddrar nefndar,“ segir Skúli. Hann tekur þó fram að dómarar hafi áður fengið á sig bæði kvartanir og kærur.

Grafið undan sjálfstæði dómsvaldsins

Skúli telur að með kæru sem þessari sé jafnvel verið að grafa undan sjálfstæði dómsvaldsins. „Hér er í raun og veru verið að gera lögreglu að endurskoðunaraðila gagnvart dómstólum. Dómarar geta þá vænst þess að það sé þá ekki eingöngu Hæstiréttur sem að hefur eftirlit með þeirra störfum heldur þurfi þeir hugsanlega einnig að standa lögreglu- og ákæruvaldinu reikningsskap.“

En hvað geta dómarar þá tekið til ráða? „Í fyrsta lagi verða dómarar náttúrulega að taka gagnrýni og opinberri umfjöllun um sín störf og dóma þá þegjandi. Ég á hins vegar von á því í þessum málum, sem þessi fréttaflutningur beinist að, að þá muni þessir dómarar svara þessum kvörtunum þegar og ef þess gerist þörf. Það er að segja, ef að það er talin ástæða til þess að rannsaka þessi máli. Og að sjálfsögðu ber þeim að gera það ef að til þess kemur, enginn dómari hafinn yfir lögin eða hafinn yfir slíka rannsókn,“ svarar Skúli.

Mat á þessum atriðum á ekki heima í lögreglurannsókn

Samherji kærir Ingveldi fyrir hönd dótturfélags síns, Polaris Seafood, vegna brota í opinberu starfi. Telur félagið að Ingveldur hafi brotið gegn 131. gr. almennra hegningarlaga með því að kanna ekki hvort Seðlabankinn hefði lagaheimild til húsleitar hjá félaginu, en Samherji telur að svo ekki hafa verið. 

Þá er Ingveldur kærð fyrir brot gegn sakamálalögum með því að hafa ekki varðveitt fylgiskjöl eða gögn sem lögð voru fram við fyrirtöku málsins.

Skúli segir að eftir að dómari fari yfir gögn máls og telji skilyrðum laga fullnægt, bæði að brot sé nægjanlega alvarlegt og að fyrir hendi sé rökstuddur grunur, þá fallist hann á beiðnina í úrskurði. „Þegar beiðnin er lögð fram þá fylgja rannsóknargögnin með en eru ekki lögð fram sem dómskjól heldur liggja frammi, eins og sagt er. Það er mjög eðlilegt að rannsóknargögn séu ekki gerð að dómskjölum og því ekki varðveitt eftir á. Þess vegna kann að vera eðlilegt að rannsóknargögn séu ekki að finna hjá dómstól í formi dómskjala,“ segir Skúli.

„Þegar rannsóknaraðgerðinni er lokið og sakborningi er gert kunnugt um aðgerðina, þá erfitt erfitt að skjóta málinu til Hæstaréttar, það liggur ljóst fyrir,“ bætir hann við.

Þó hefur átt sér stað umræða um að breyta eigi reglum til þess að auka vernd sakbornings. „Ýmsar leiðir hafa verið nefndar í því samhengi. Það hefur til dæmis verið nefnt að það ætti að vera heimilt að skjóta máli til Hæstaréttar þótt að lögvarðir hagsmunir séu ekki lengur fyrir hendi vegna þess að aðgerðinni er lokið, en þó þannig að Hæstarétti sé gefinn kostur á að fjalla um lögmæti aðgerðarinnar þó að hún sé afstaðin. En við höfum náttúrulega séð það í málum undanfarið að dómstólar fjalla með ýmsum hætti um lögmæti svona aðgerða. Það er því ekki hægt að sakast við dómara sem að fer að gildandi reglum. Endurskoðun á þessu mati dómarans á ekki heima hjá lögreglu í lögreglurannsókn,“ segir Skúli.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Dómari kærður fyrir brot í starfi

Hérðasdómur Reykjavíkur
Hérðasdómur Reykjavíkur mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert