Engum flugum aflýst

Engum flugum hefur veroð aflýst hjá WOW air vegna verkfallsins …
Engum flugum hefur veroð aflýst hjá WOW air vegna verkfallsins og aðeins hafa orðið smávægilegar seinkanir af völdum þess Heimasíða WOW Air

Seinkun varð á flugi tveggja flugvéla WOW air síðdegis í dag vegna verkfalls franskra flugumferðarstjóra. Um var að ræða flug til Lyon í Frakklandi og Barcelona á Spáni. Báðum flugunum seinkaði um ríflega klukkustund.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir seinkunina til Barcelona orsakast af því að verkfall flugumferðarstjórana hafi einnig áhrif á flug í lofthelgi Frakklands, en ekki aðeins brottfarir og lendingar.

Farþegar vélanna þurftu að bíða í klukkustund um borð áður en tekið var á loft, en að sögn Svanhvítar er þetta vegna þess að flugvélar með farþega um borð fá forgang þegar kemur að því að veita leyfi til flugs yfir landið. Ekki er gert ráð fyrir að nein flug verði felld niður eða meiriháttar seinkanir komi til að sögn Svanhvítar.

„Við vinnum alltaf bara með þær upplýsingar sem við fáum og þær koma almennt með stuttum fyrirvara. Þetta hafa ekki verið neinar meiriháttar seinkanir og þess má til gamans geta að flugið okkar til Parísar í morgun fór örfáum mínútum á undan áætlun,“ segir Svanhvít

Engar meiriháttar seinkanir hafa verið hjá Icelandair, en tæplega klukkustundar seinkun varð á flugi félagsins til Parísar í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert