Vöknuðu við hvíta jörð

„Hér var allt autt í gær en við vöknuðum við hvíta jörð í morgun,“ segir Jón Sigurðarson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna frá Vopnafirði, í samtali við mbl.is, en hann er staddur í skálanum við Drekagil í Dyngjufjöllum. Björgunarsveitin stendur þar hálendisvakt Landsbjargar. 

Að sögn Jóns var skálinn fullur af erlendum ferðamönnum í nótt en enginn gisti í tjaldi á svæðinu. Hann segir ferðamennina vel upplýsta um það sem þeir eru að gera en þó hafi snjórinn komið öllum á óvart.

„Maður reiknar ekki með þessu 5. júlí en maður á kannski að reikna með þessu í 700 metra hæð yfir sjávarmáli,“ segir Jón.

Hann segir Lindá og Jöklu sæmilegar yfirferðar og að lítið sé í þeim. „Á meðan þetta fellur sem snjór þá hækkar ekki í þeim en um leið og það hlýnar þá kemur náttúrulega mikið vatn,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert