Staðfest að pilturinn var íslenskur

mbl.is

Utanríkisráðuneytið hefur staðfest við mbl.is að pilturinn sem lét lífið í skemmtigarði á Benidorm á Spáni síðdegis í dag var íslenskur. Hann var í sumarfríi á Spáni ásamt fjölskyldu sinni. 

Slysið varð í skemmtigarðinum Terra Mítica, en samkvæmt spænskum fjölmiðlum var pilturinn um borð í hringekjunni Inferno þegar hann kastaðist úr henni á mikilli ferð. Hann var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús, þar sem hann lést skömmu síðar.

Fyrstu fregnir af málinu í dag voru nokkuð misvísandi, því í spænsku miðlunum El Mundo og Información sagði að pilturinn væri íslenskur, á meðan breska blaðið Mirror sagði hann Breta.

Utanríkisráðuneytið hafði ekki fengið tilkynningu um slysið þegar mbl.is hafði fyrst samband um sjöleytið í kvöld og var þá hafist handa við að afla upplýsinga um málið. Nú er ljóst að ungi maðurinn er íslenskur og mun utanríkisráðuneytið aðstoða fjölskylduna við framhaldið.

Terra Mítica var opnaður á Bendirom árið 2000 og er einn stærsti skemmtigarður Evrópu. Fjölmargir Íslendingar leggja leið sína árlega í garðinn, enda er hann í námunda við vinsæla sumardvalarstaði s.s. Torrevieja þar sem íslenski pilturinn er sagður hafa dvalið.

TV2 í Noregi fjallar um málið í kvöld og hefur eftir Norðmönnum sem heimsótt hafa skemmtigarðinn árum saman að hann sé farinn að láta á sjá og þarfnist viðhalds.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Íslenskur piltur sagður látinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert