Massey Ferguson sá um að ferja brúðhjónin

Það fór vel um þau í kerrunni og Egill spurði …
Það fór vel um þau í kerrunni og Egill spurði hvenær þau ætluju að gifta sig aftur. mbl.is/Bruce McMillan

Hin nýgiftu Rannveig Rós Ólafsdóttir og Atli Örn Hafsteinsson eru svo gæfusöm að eiga stóra fjölskyldu og góða vini sem hjálpuðu þeim að gera alvöru sveitabrúðkaup að veruleika. Fjósinu að Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum var breytt í koníaksstofu, hlöðunni í veislusal og brúðarbíllinn var Massey Ferguson árgerð 1959.

Okkur langaði til að hafa brúðkaupið okkar létt og skemmtilegt í fallegu umhverfi, svo við fengum hlöðuna og fjósið til afnota hjá föðurfólki mínu sem býr á Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum,“ segir Rannveig Rós Ólafsdóttir, sem fyrir rétt rúmri viku gekk í það heilaga með sínum heittelskaða, Atla Erni Hafsteinssyni. „Afi minn er fæddur og uppalinn á Syðstu-Mörk og bróðir hans, Guðjón Ólafsson, býr á bænum, en afi á bústað þarna í landinu og þar var ég oft sem krakki. Staðurinn hefur því tilfinningalegt gildi fyrir mig,“ segir Rannveig, en nýgiftu hjónin búa í höfuðborginni ásamt börnunum sínum tveimur, Agli Ólafi og Þórdísi Láru.

Að Syðstu-Mörk hefur ekki verið búskapur mörg undanfarin ár en með hjálp fjölskyldunnar og vina tókst þeim að gera útihúsin notaleg fyrir brúðkaupsveisluna. „Við lögðu mikla vinnu í þetta, útbjuggum litla koníaksstofu í fjósinu með gömlum húsgögnum frá tengdapabba, því hann er bólstrari og lumaði á gömlum fallegum stólum. Veislan var í hlöðunni og með góðri hjálp fjölskyldumeðlima gerðum við hana hæfa fyrir veisluhöldin, sléttuðum gólfið, settum dúk í loftið og hengdum pappaluktir með ljósum í loftið, myndir á veggi og alls konar skraut.“ Þau gáfu líka gömlum sveitatækjum nýtt hlutverk, settu klaka í gamlan áburðardreifara og mjólkurtank, til að halda drykkjum köldum.

Ég gat ekki staðið í kerrunni

Brúðarbíllinn var ekki af verri endanum, gullfallegur Massey Ferguson árgerð 1959, en kerra var sett aftan í hann til að ferja brúðhjónin milli staða. „Ég sá fljótt að ekki gæti ég staðið í kerrunni svo við settum tvo gamaldags stóla í hana og þá var þetta fullkomið. Við fengum Fergusoninn lánaðan hjá Guðjóni Traustasyni sem er með bústað að Hamragörðum, en faðir hans átti þennan Ferguson á sínum búskaparárum. Áratugum síðar fann Guðjón traktorinn í niðurníðslu í Landeyjum og gerði hann upp. Það hefur tekist afar vel, enda er Guðjón mikill „altmulig“-maður. Okkur fannst vel við hæfi í sveitabrúðkaupi að láta feður okkar keyra með okkur milli staða á þessum Ferguson, pabbi keyrði mig upp að bústaðnum okkar þar sem athöfnin var á pallinum undir berum himni, en að athöfn lokinni ók tengdapabbi okkur á Fergusoninum í myndatöku hjá Erlu Berglindi Sigurðardóttur ljósmyndara. Þeir voru mjög spenntir fyrir þessu pabbarnir okkar, að fá að keyra þennan eðalgrip, og brúðguminn reyndar líka, en hann fékk að keyra hann daginn eftir, til að skila honum til síns heima. Fergusoninn setti mikinn svip á brúðkaupið okkar og Agli syni okkar fannst svo skemmtilegt að sitja í kerrunni að hann spurði hvenær við ætluðum að gifta okkur aftur.“

Afslappaður prestur

Gestirnir í brúðkaupinu komu víða að, meðal annars frá Bandaríkjunum. „Bandaríski ljósmyndarinn Bruce McMillan er fjölskylduvinur okkar og mikill Íslandsvinur og við buðum honum í brúðkaupið. Ég hef þekkt hann frá því ég var tíu ára, en þá tók hann myndir af systur minni fyrir barnabókina Night of the Pufflings. Einnig var frændfólk okkar frá Hollandi meðal gesta, en hluti af því býr í Aruba. Allir voru mjög ánægðir, þetta var vel heppnað og veðrið lék við okkur, alveg kjörið fyrir útibrúðkaup. Fólk var meira úti en inni í veislunni, það sótti í að sitja úti í blíðunni.“ Haraldur Kristjánsson prestur í Vík gaf þau Rannveigu og Atla saman og hún segir að hann hafi verið mjög afslappaður. „Hann var léttur og skemmtilegur, enda vildum við ekki hafa neinn stífleika yfir þessu.“

Hafsteinn Gunnarsson, faður brúðgumans, ekur með litlu fjölskylduna til veislunnar.
Hafsteinn Gunnarsson, faður brúðgumans, ekur með litlu fjölskylduna til veislunnar. mbl.is/Bruce McMillan
Útihúsin hentuðu afar vel fyrir brúðkaupsveisluna og stemningin var góð.
Útihúsin hentuðu afar vel fyrir brúðkaupsveisluna og stemningin var góð. mbl.is/Bruce McMillan
Athöfnin fór fram á palli sumarbústaðar fjölskyldunnar og gestir sátu …
Athöfnin fór fram á palli sumarbústaðar fjölskyldunnar og gestir sátu í grænum lundi í blíðunni. mbl.is/Bruce McMillan
Óli og Bína rölta með Þórdísi Láru heim í bústað …
Óli og Bína rölta með Þórdísi Láru heim í bústað í ból. Stóri Dímon að baki. mbl.is/Bruce McMillan
Vel var skreytt í veislunni.
Vel var skreytt í veislunni. mbl.is/Bruce McMillan
Ólafur Ólafsson, faðir brúðarinnar, leiddi hana stoltur til athafnarinnar.
Ólafur Ólafsson, faðir brúðarinnar, leiddi hana stoltur til athafnarinnar. mbl.is/Bruce McMillan
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert