Hefja framleiðslu á gulrófusnakki

Skal af gulrófusnakki á fundi norrænu ráðherranefndarinnar. Svavar Pétur hannar …
Skal af gulrófusnakki á fundi norrænu ráðherranefndarinnar. Svavar Pétur hannar kynningarefnið sjálfur. Mynd/Berglind Häsler

„Þetta hófst allt með bulsunum, grænmetispulsunum sem fóru á markað í fyrra og hafa fengið frábærar viðtökur. Við fundum okkur í matvælaframleiðslu og ákváðum að halda áfram. Síðan kom þessu hugmynd til okkar að búa til hollt snakk og rófur voru tilvaldar í það,“ segir Berglind Häsler, en hún og eiginmaður hennar, Svavar Pétur Eysteinsson, hlutu nýlega Vaxtarstyrk á Austurlandi til þess að hefja framleiðslu á gulrófusnakki. 

„Við lögðum eldhúsið okkar undir tilraunamennski enn á ný. Allt var á hvolfi, rófur hvítlaukur og chili út um allt. Svavar hefur gert þó nokkrar tilraunir og útfærslur og nú höldum við að þetta sé bara komið.“

Styrkurinn hljóðar upp á 1 milljón króna og kemur frá Vaxtarsamningi Austurlands, sem er samstarfsverkefni Austurbrúar og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Berglind og Svavar hafa fjölbreytta reynslu að baki. „Svavar er grafískur hönnuður og tónlistarmaður og ég er blaðamaður. Við fluttum svo austur í Berufjörð í apríl og gerðumst alvöru bændur ofan á allt annað,“ segir Berglind. 

Norrænir ráðherrar sjúkir í snakkið

„Við framleiðsluna á snakkinu notum við minnstu rófurnar sem þykja ekki eins vænlegar til smásölu. Við erum því að auka verðmæti rófunnar. Síðan er þetta bakað í smá olíu, sem sagt ekki djúpsteikt og því mjög hollt. Rófurnar eru svo kryddaðar með ferskum hvítlauk og chili.“ Berglind kynnti vöruna á dögunum á fundi norrænu ráðherranefndarinnar og Matís, á Selfossi. „Fólk var sjúkt í þetta og það gefur okkur byr undir báða vængi, og þessi styrkur sömuleiðis.“

Nú vinna hjónin að því að finna hentugar pakkningar fyrir snakkið, sem eru umhverfisvænar, auk þess sem þau eru á höttunum eftir hentugum tækjum og tólum til þess að hefja framleiðslu. Snakkið verður framleitt á bæ hjónanna á Karlsstöðum í Berufirði. 

 Að sögn Berglindar er markmiðið að koma snakkinu á markað í haust. „Framleiðslan byrjar væntanlega hægt, það verður engin ofsaframleiðsla strax, en hún mun vonandi aukast jafnt og þétt.“

Berglind Häsler og eiginmaður hennar, Svavar Pétur Eysteinsson
Berglind Häsler og eiginmaður hennar, Svavar Pétur Eysteinsson mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert