Óbreytt staða í Múlakvísl

Múlakvísl í morgun
Múlakvísl í morgun mbl.is/Jónas Erlendsson

Engar breytingar hafa komið fram á mælum Veðurstofu Íslands í nótt vegna jökulhlaupsins í Múlakvísl og og Jökulsá á Sólheimasandi. Jökulhlaupið tengist jarðhitavirkni undir Mýrdalsjökli. Að sögn fréttaritara mbl.is sem skoðaði aðstæður í morgun hefur heldur vaxið í Múlakvíslinni í nótt. 

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa sannreynt að um minniháttar jökulhlaup sé að ræða í Múlakvísl, en óvissustigi var lýst þar yfir í gær. Biður almannvarnadeild ríkislögreglustjóra ferðafólk að fara að öllu með gát á svæðunum í kringum Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl vegna hættu á aukinni brennisteinsvetnismengun.

Hlaupið hófst 2. júlí og jókst þá rennsli árinnar auk þess sem hækkandi rafleiðni gaf til kynna að jarðhitavökvi hefði blandast bræðsluvatni við botn Mýrdalsjökuls, þar sem hlaupið á upptök sín.

Hlaupið árið 2011 í fersku minni

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hlaupið í Múlakvísl fyrir þremur árum vera mönnum í fersku minni. „Þarna fer saman töluverð jarðskjálftavirki og jarðhitavatn að koma í árnar. Þetta þarf ekki að leiða til neins sérstaks en mönnum er í fersku minni hlaup sem kom í Múlakvísl fyrir þremur árum sem tók brúna þar. Við þekkjum ekki svæðið til hlítar og töldu menn rétt að vera á varðbergi og því var þessu óvissustigi lýst yfir,“ segir Magnús.

Hann segir að einstaka sinnum hafi komið hlaup á svæðinu sem hafi valdið skaða og því sé rétt að fylgjast með ástandinu á næstunni.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar yrði ógnað. Almannavarnayfirvöld fylgjast vel með framvindu mála á næstu dögum.

Reynir Ragnarsson fyrrv. lögreglumaður í Vík mælir rafleiðni í Múlakvísl …
Reynir Ragnarsson fyrrv. lögreglumaður í Vík mælir rafleiðni í Múlakvísl í gærkvöldi Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert