Hlaupið í Múlakvísl í rénun

Hlaupið í Múlakvísl er í rénun en áin er enn …
Hlaupið í Múlakvísl er í rénun en áin er enn þá mjög vatnsmikil samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hlaupið í Múlakvísl er í rénun. Rafleiðni hefur farið minnkandi frá því í gær og nálgast nú eðlilegt horf miðað við árstíma, að því er fram kemur í athugasemd sérfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Hlaupið hófst fyrir nokkrum dögum og mældist rafleiðni hæst í kringum 300 míkrósímens á sentimetra (míkróS/cm), en venjuleg rafleiðni í ánni er í kringum 100 míkróS/cm. 

Mikið vatn er þó enn í ánni og er fólk hvatt til þess að sýna aðgát í nágrenni við hana. Hlaup af þessari stærðargráðu eru vel þekkt í Múlakvísl. Mikil gasmengun fylgdi hins vegar hlaupinu að þessu sinni og mældist gasmengun yfir heilsuverndarmörkum í fyrradag. 

Veðurstofan, almannavarnir og viðbragðsaðilar á svæðinu munu fylgjast áfram með framvindu mála næstu sólarhringa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert