Krefja ríkið um skaðabætur

Lögreglumaðurin sem enn liggur undir grun er sakaður um óðelilegar …
Lögreglumaðurin sem enn liggur undir grun er sakaður um óðelilegar flettingar í málakerfi lögreglu og að hafa deilt upplýsingunum í lokuðum hópi á Facebook. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir menn sem handteknir voru og látnir sæta einangrun vegna gruns um aðild þeirra að LÖKE-málinu s.k. ætla að leita réttar síns og krefja ríkið um skaðabætur. Lögmaður þeirra segir að með handtökunni hafi lífi þeirra í raun lokið eins og þeir þekktu það, en báðir misstu þeir vinnuna.

Málið hófst þegar þrír menn, þar á meðal lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu, voru handteknir í apríl í tengslum við óeðlilegar flettingar í málakerfi ríkislögreglustjóra, LÖKE. Í lok júní felldi ríkissaksóknari niður mál eins þeirra, sem starfaði sem lögmaður, og nú í vikunni var mál fyrrverandi starfsmanns símafyrirtækisins Nova einnig fellt niður.

Málið gegn þeim þriðja, lögreglumanninum, er enn í ákæruferli hjá ríkissaksóknara. Hann er sakaður um að hafa deilt upplýsingum úr LÖKE-kerfinu í lokuðum hóp á Facebook.

Manninum sem starfaði hjá Nova var sagt upp störfum um leið og hann losnaði úr haldi lögreglu og lögmaðurinn fór í leyfi sem hann hefur ekki átt afturkvæmt úr.

Mannorð aldrei bætt með skaðabótum einum saman

Garðar Steinn Ólafsson lögmaður þremenninganna segir að þeir hyggist krefjast skaðabóta og jafnframt kanna möguleika á að leita réttar síns hvað varðar rangar sakargiftir, þar sem þeir hafi saklausir verið bornir sökum um refsiverðan verknað. 

„Sem verjandi mannanna á ég að fá öll málsgögn, og ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að trúnaðargögnum hafi verið deilt. Handtökurnar virðast því vera tilefnislausar með öllu.“

Að sögn Garðars var gengið mjög hart fram gegn mönnunum. Þeir voru handteknir á vinnustað þeirra, hnepptir í gæsluvarðhald í einangrun í sólarhring auk þess sem hald var lagt ýmis gögn og farið í gegnum allar þeirra samræður í gegnum bæði síma og tölvur. Þannig hafi verið brotið gegn einkalífi þeirra á kerfisbundinn hátt.

„Ábyrgð lögreglu í svona málum er mjög þung. Opinber handtaka og alvarlegar ásakanir eins og skjólstæðingar mínir urðu fyrir eru reiðarslög sem menn verða ekki samir eftir. Það má aldrei leggjast út í svona aðgerðir án þess að hafa eitthvað fyrir sér. Mannorð verður aldrei bætt með skaðabótum einum saman,“ segir Garðar.

Kæran verður lögð fram á næstu vikum en ekki er von á því að hún verði tekin fyrir fyrr en í september, að loknu dómhléí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert