Fékk 210 símtöl í kringum áramótin

mbl.is/Eggert

Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra (FMR) bárust 210 símtöl frá neyðarlínunni 112 frá klukkan 19:00 á gamlárskvöld og fram til 7:00 á nýársdagsmorgunn en venjulega fær miðstöðin um 200 símtöl frá neyðarlínunni á sólarhring. Þá eru ótalin öll önnur samskipti starfsmanna miðstöðvarinnar við lögreglulið landsins í gegnum talstöð og síma.

„Ríkislögreglustjóri starfrækir fjarskiptamiðstöð sem er stoðdeild við lögregluumdæmin í landinu og sinnir samræmingarhlutverki við lögregluliðin. FMR tekur við símtölum og verkefnum frá 112 sem ætluð eru lögreglu og forgangsraðar þeim og annast stýringu alls útkallsliðs lögreglu til verkefna. FMR er því tengiliður borgaranna við lögregluna og jafnframt við lögreglumenn sem starfa úti á vettvangi,“ segir á vef lögreglunnar.

Þar segir að ríflega 70% allra erinda sem berist neyðarlínunni flokkist sem lögregluverkefni og séu því flutt yfir til FMR til úrlausnar. Miðstöðin veiti einnig lögreglumönnum á öllu landinu ýmsa þjónustu, til að mynda með uppflettingum í landskerfi lögreglunnar, LÖKE. Stöðugildi FMR séu 22 og þar af starfi 19 manns á sólarhringsvöktum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert