Eina kjörbúðin eldi að bráð

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. mbl.is/Golli

Eldur kviknaði í einu kjörbúð Vopnafjarðar í nótt, Kauptúni, og er allt innbú verslunarinnar ónýtt. Í sama húsi er lyfsala og vínsala bæjarins og ljóst að íbúar Vopnafjarðar þurfa langt að sækja helstu nauðsynjar næstu daga.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vopnafirði barst slökkviliði bæjarins tilkynning um eld í versluninni klukkan 4.55 í morgun. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og var slökkvistarfi lokið um 5.30. Rannsókn lögreglu á eldsupptökum stendur enn yfir en allt bendir til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni.

En þrátt fyrir að eldurinn hafi ekki verið mikill og ekki valdið miklum skemmdum er verslunin gríðarlega illa farin eftir sót og reyk. Í raun er ólíklegt að hægt sé að bjarga nokkru af þeim vörum sem voru í versluninni og á lager hennar. 

Jafnframt er ljóst að ekki er hægt að selja þau lyf og áfengi sem voru inni í lyfsölunni og vínbúðinni. Tjónið er því gríðarlegt, en von er á fulltrúum tryggingarfélaganna austur síðar í dag.

En þetta er ekki eins auðvelt og ef það kviknar í verslun í stærri byggðarlögum því þetta er eina kjörbúð Vopnafjarðar, sem er kannski ekki í alfaraleið, og næsta lyfsala væntanlega á Þórshöfn.

Nikulás Árnason, sem rekur verslunina ásamt fjölskyldu sinni, segir þetta mikið áfall og hann eigi ekki von á því að hægt verði að hefja verslunarrekstur aftur á næstu dögum. Eftir sé að meta tjónið en hann reikni með því að öll vara í versluninni og lager sé ónýt. Nú sé beðið eftir tryggingunum að meta tjónið. „Þangað til vitum við afskaplega lítið,“ segir Nikulás. 

Upplýsingar um verslunina á vef Vopnafjarðar

mbl.is/Gúna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert