Fimmtán ára í öðru sæti í Gullhringnum

Kristín Edda lagði stund á fimleika í 8 ár, en …
Kristín Edda lagði stund á fimleika í 8 ár, en einbeitir sér nú að hjólinu. Óskar Ómarsson

Hjólreiðaíþróttin heldur áfram að afla sér vinsælda hér á landi og á laugardag tóku um 300 manns þátt í Gullhring Kia. Þetta var í þriðja skiptið sem keppnin er haldin og hefur keppendum fjölgað ár frá ári, líkt og mbl.is greindi frá í gær.

Í A-flokki hjóla keppendur 106 kílómetra og sumir blása vart úr nös á meðan. Ein þeirra er Kristín Edda Sveinsdóttir, 15 ára hjólreiðakappi úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Hún lenti í 2. sæti í A-flokki kvenna og kom í mark 3 klukkustundum og 31 mínútu. Hún hefur aldrei hjólað svo langa vegalengd í keppni áður. Þá náði Sæmundur Guðmundsson, 14 ára reiðhjólakappi, einnig góðum árangri þegar hann lenti í 18. sæti í karlaflokki.

Þegar blaðamaður náði tali af Kristínu Eddu var hún, að sjálfsögðu, nýstigin af hjólinu eftir æfingu. „Ég var að koma inn, en vanalega hjólum við um 50-60 kílómetra á hverri æfingu,“ segir Kristín Edda. Á sumrin æfir hún á svokölluðu racer-hjóli sem nær miklum hraða. „Dekkin eru mjórri á þannig hjóli. Á veturna æfi ég á fjallahjóli, þó að ég hjóli samt stundum um Öskjuhlíðina á fjallahjólinu á sumrin,“ segir Kristín.

Pabbi skýldi fyrir vindinum uppi á heiðinni

Hún var sátt með frammistöðu sína á laugardag en helst kom henni á óvart að vegalengdin væri ekki lengri. „Ég var mjög hress í keppninni þrátt fyrir að það hafi verið mikið rok, sérstaklega uppi á heiðinni. Þar gat ég ekki tekið vindinn fyrir aðra af því að þá hefði ég bara fokið. Ég þurfti að vera í skjóli og þá hjólaði ég bara fyrir aftan pabba,“ segir Kristín Edda, sem fékk einnig góða hjálp frá Róberti Lee úr Tindi.

Hún bætir við að hún hafi verið beðin að hjóla í fylgd fullorðins vegna þess að þetta var hennar fyrsta stóra keppni. Þá kom sér vel að eiga pabba sem var klár í slaginn.„Við pabbi tókum alltaf sprettinn upp brekkur til þess að þreyta hópinn fyrir aftan okkur. Það var góð taktík sem virkaði vel,“ segir Kristín Edda um lykilinn að þessum góða árangri.

Hún hafði þó ekki æft í tvær vikur fyrir keppnina vegna meiðsla í hjólreiðakeppninni Tour De Hvolsvöllur, sem haldin var 28. júní. Þar datt Kristín Edda með þeim afleiðingum að hjólið lenti ofan á henni og tannhjólið tætti upp á henni lærið svo sauma þurfti um 60 spor í lærið. „Þetta var samt ekki stórt sár en sporin voru mörg,“ segir Kristín Edda, en saumarnir voru teknir úr henni á þriðjudaginn.

„Eftir það hef ég bara verið sjúk í þetta“

Kristín Edda segist lengi hafa haft áhuga á hjólreiðum en ekki vitað hvaðan sá áhugi kemur. „Ég var alltaf að leita að æfingum þegar ég var yngri en þá var ekkert í boði fyrir krakka. Pabbi minn vinnur í verslun sem selur verðlaunagripi og þar heyrði hann af hjólreiðamóti fyrir krakka. Ég fór og prófaði og eftir það hef ég bara verið sjúk í þetta,“ segir Kristín Edda.

Hún æfir fjórum sinnum í viku með Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og í vetur æfði hún þríþraut. Skemmtilegast finnst henni þó á hjólinu. „Eftir 10. bekk langar mig að fara til Danmerkur til þess að æfa. Þar er gott að æfa og þar eru fleiri stelpur á mínum aldri,“ segir Kristín Edda sem hvetur alla krakka til þess að prófa að mæta á hjólaæfingar.

Kristín Edda hjólar hér Gullhringinn, en hún hafði ekkert æft …
Kristín Edda hjólar hér Gullhringinn, en hún hafði ekkert æft í tvær vikur fyrir keppnina. Albert Jakobsson
Kristín Edda á sprettinum í Jökulmílunni.
Kristín Edda á sprettinum í Jökulmílunni. Örn Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert