„Allt landið er skekið af átökunum“

Fríða Rós Valdimarsdóttir - Fríða stendur hér við lestarstöð í …
Fríða Rós Valdimarsdóttir - Fríða stendur hér við lestarstöð í Ísrael, þar sem hún býr. Hún upplifir með óyggjandi hætti hvernig átökin hafa áhrif á andrúmsloftið í landinu. Af Facebook síðu Fríðu

Fríða Rós Valdimarsdóttir er búsett í Palestínumegin í Jerúsalem ásamt eiginmanni sínum, Arnari Gíslasyni, og á erfitt með að finna einhliða lýsingu á ástandi landsins.

Hún segir að átökin hafi skekið alla þjóðina, ekki bara þá sem búa nálægt Gasa, að Ísraelsmenn upplifi sigurvissu og stolt í bland við ótta og að innan um öfgakennda þjóðernishyggju sem jaðri oft við fasisma sé einnig að finna þá sem andmæla hernaðaraðgerðum í Gasa.

Eins og fram hefur komið hófst landhernaður á Gasasvæðinu í gær og ástandið vægast sagt skelfilegt. Fjöldi Palestínumanna hefur látist í átökunum og enn fleiri flúið heimili sín.

„Við fréttum af þessu á netinu einsog aðrir en þetta var búið að vera yfirvofandi í svona viku,“ segir Fríða stödd í Jerúsalem í símtali við mbl.is í dag, og lýsir hvernig árásirnar hafa stigmagnast undanfarna daga.

Andúð á báða bóga

Ekki sé til staðar einhliða lýsing á andrúmsloftinu í landinu, en ísraelska þjóðin upplifi ótta samhliða sigurvissu, stolt samhliða sorg. „Maður finnur fyrir mikilli þjóðernishyggju og hatri á Palestínumönnum,“ segir Fríða og lýsir hvernig meintir mótmælafundir eigi sér reglulega stað á götum úti, þar sem Ísraelsmenn hópast saman og sammælast um andúð sína á Palestínu.

„Það voru friðsæl mótmæli í borginni Haifa í norðurhluta Ísrael um daginn. Fólk var að mótmæla árásunum á Gasa og þá komu þjóðernissinnar og réðust á það.“ Fríða telur þjóðernishyggjuna í landinu oft svipa til fasisma.

„Það er samt erfitt að tala um þetta einhlítt. Það er allur skalinn hérna.“ Á meðan þjóðernishyggja og andúð á Palestínu séu í miklum mæli finnist líka þeir sem neiti að fara í herinn og taka frekar út þunga refsingu en að ráðast á Palestínu. „Hér er bæði fólk sem leggst algerlega gegn mótmælunum og fólk sem gleðst yfir dauðsföllum Palestínumanna.

Ég sé þetta allt í bland.“

Allt landið skekið

Þótt átökin séu einkum í kringum Gasasvæðið finni allt landið fyrir þeim. „Þetta skekur allt landið. Ísraelski herinn er til dæmis enn að handtaka Palestínumenn hús úr húsi á vesturbakkanum í leit að þeim sem drápu þessa þrjá ísraelsku stráka.“

Fríða vísar til morðsins á þremur ísraelskum drengjum sem hafði í för með sér miklar hefndaraðgerðir og handtökur.

„Ísraelsmenn eru uggandi yfir sprengjunum sem koma frá Gasa, það heyrist í háværum viðvörunarbjöllum af og til og það er ótti í loftinu.“

Kerfisbundin þöggun

Ríkjandi fjölmiðlar birti afar sjaldan sjónarmið Palestínumanna.

„Við byrjuðum mjög fljótlega að finna fyrir kerfisbundinni kúgun og þöggun hérna. Allt er gert til að gera Palestínumönnum erfitt fyrir,“ segir Fríða.

Allir helstu ísraelskir fjölmiðlar kenni Hamas um átökin. „Núna þegar vopnahléið kom upp var einsog allt væri Hamas að kenna og ekki mikil umfjöllun um að Hamas ætli ekki að fara frá sínum kröfum. Það er ekki tekið tillit til krafna þeirra, og þess vegna var ekki reynt á vopnahléið.“

Vísar hún til skilyrða Hamas samtakanna fyrir vopnahléi, sem var rofið með sprengjuárásum.

„Þetta eru grundvallarmannréttindi sem þeir eru að biðja um. Að opna landamærin til að komast milli staða, ráða yfir sjónum utanvið landið sitt og að föngunum sem voru aftur handteknir í þessari leit eftir morðingjum ísraelsku drengjanna verði sleppt.

Í grunninn eru þetta kröfurnar en það er ekkert hlustað á þá.“

„Stóra fangelsið“

Gasasvæðið sé kallað „Stóra fangelsið“ og ekki af ástæðulausu.

„Það þarf ekki að skoða málið lengi til að sjá hversu hræðilegur aðbúnaður er þarna. Þetta er einn þéttbýlasti staður heims, 1,7 milljónir manna, og þegar maður keyrir um vesturbakkann sér maður landtökubyggðir Ísraelsmanna úti um allt. Þeim bara fjölgar.“

Landtökubyggðum hafa fjölgað jafnt og þétt gegnum árin samhliða minnkun landsvæðis Palestínumanna og ekki virðist því ætla að linna, að sögn Fríðu. Þvert á móti streymi alltaf fleira fólk inn í landið.

Fríða finnur enga einhliða lýsingu á ástandinu, en segir þjóðernishyggjuna …
Fríða finnur enga einhliða lýsingu á ástandinu, en segir þjóðernishyggjuna minna um margt á fasisma. Fríða Rós Valdimarsdóttir
Fríða á göngu í Ísrael - Fjölmiðlaumfjöllun í landinu gerir …
Fríða á göngu í Ísrael - Fjölmiðlaumfjöllun í landinu gerir ekki mikið úr sjónarmiðum Palestínumanna, að sögn Fríðu, því um hertekið landsvæði er að ræða. Af Facebook síðu Fríðu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert