„Ekki ein bjórdós á svæðinu“

Hið árlega Kotmót fer nú fram í 65. sinn í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Mótið er kristileg fjölskylduhátíð haldin af Hvítasunnukirkjunni á Íslandi og áætlar Andri Ómarsson, einn skipuleggjenda mótsins, að á annað þúsund gesta sé á svæðinu.

Mótið er að mestu haldið í gamla tívolíhúsinu frá Hveragerði, en það kallast nú Örkin. Andri segir ekki að fullu ljóst hvernig nafngiftin kemur til.

„Ég veit ekki almennilega hvernig þetta byrjaði, en hér er allavega bara fólk og enginn fiðurfénaður eða önnur dýr,“ segir Andri.

Þétt dagskrá er á mótinu frá tíu á morgnana og langt frameftir og er þar hugað að börnum jafnt sem fullorðnum. Mótið er fyrst og fremst fjölskylduskemmtun en Andri segir ekkert fyllerí koma til greina.

„Það er ekki ein bjórdós á svæðinu og hvað þá annað. Þetta er mjög siðsamlegt og gott allt saman.“

Allt sýnt beint á netinu

Sýnt er beint frá mótinu allan sólarhringinn á vefsíðu mótsins, en Andri segir talsvert áhorf vera á strauminn.

„Við reynum með þessu að færa dagskrána til þeirra sem ekki komast. Það hefur verið mikið horft á þetta á netinu, en t.a.m. hefur verið horft reglulega frá tólf löndum,“ segir Andri. 

Mótshaldarar eru gríðarlega sáttir með helgina, en veðrið hefur leikið við gesti meirihluta hennar. Hápunkturinn er síðan í kvöld þegar hæfileikakeppnin KotVision verður haldin í fimmta sinn.

„Þetta er hæfileikakeppni fyrir ungt fólk haldin af ungu fólki. Þar verða einhver atriði í kvöld og símakosning, þannig að áhorfendur í sal fá að taka þátt,“ segir Andri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert