Bjóða 25.000 krónur í Herjólfsmiða

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Dæmi eru um að fólk bjóði 25.000 krónur fyrir miða í Herjólf frá Vestmannaeyjum til.

Í Facebookhópnum Þjóðhátíð 2014!!! býður fólk 25.000 krónur í miða milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar klukkan 17:00 í dag, á frídag verslunarmanna. Miðinn kostar 1.260 krónur í miðasölu Herjólfs. Verðið er því tæplega tuttugufalt.

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, hafði ekki heyrt af þessu þegar mbl.is náði tali af honum, en hann segir í sjálfu sér ekkert hægt að gera til að stöðva þennan eftirmarkað með miða, umfram það sem þegar hefur verið gert.

Svartamarkaðsbrask með miðana

„Ég hef ekkert heyrt af þessu, en þykir þetta ansi mikið fyrir stutta siglingu. Ætli það sé ekki erfitt að eiga við það ef einhverjir einstaklingar eiga miða í bátinn og kjósa að selja hann.“

Hann segir þetta vera eina af þeim ástæðum að miðar í Herjólf voru seldir í pakka með miðum á Þjóðhátíð. „Þjóðhátíðarnefnd keypti 2/3 af miðunum fyrir og eftir hátíðina til að koma í veg fyrir það sem hlýtur að flokkast undir svartamarkaðsbrask.“

„Þetta væri ein af mögulegum afleiðingum þess ef miðarnir væru allir seldir á frjálsum markaði, beint til kúnna, þá gætu þeir farið í þennan leik.“

Hann bætir því við að Þjóðhátíð hafi gengið vonum framar og að Þjóðhátíðargestir hafi verið til fyrirmyndar.

Mikil öryggisgæsla

Einn Þjóðhátíðargestur sendi mbl.is þessa mynd, þar sem að hans sögn er verið að kanna hvort fólk á leið um borð í Herjólf sé með miða í rétta ferð. Hann segir marga hafa verið í röðinni síðan í nótt að reyna að verða sér úti um miða, ýmist með skiptum eða kaupum.

Nokkur seinkun hefur orðið vegna þessa, en Herjólfur átti að leggja af stað frá Vestmannaeyjum klukkan 17:00.

Mikil öryggisgæsla er við Herjólf til að tryggja að fólk …
Mikil öryggisgæsla er við Herjólf til að tryggja að fólk smygli sér ekki um borð með miða í aðrar ferðir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert