„Þurfum að fjarlægja marga útlimi“

Elín Oddsdóttir.
Elín Oddsdóttir.

Það er mikið að gera hjá Elínu Oddsdóttur, skurðhjúkrunarfræðingi, sem komin er til starfa á Gaza á vegum Rauða krossins. Hún hafði nýlokið við að fjarlægja báða fótleggi af ungum manni sem varð fyrir sprengjubroti þegar mbl.is náði af henni tali. „Sjáðu, hérna er sprengjubrotið,“ heyrðist í samstarfsmanni hennar á meðan símtalinu stóð.

Elín kom til Gaza á mánudaginn en þar áður hafði hún verið í tvo daga í Jerúsalem á meðan hún beið þess að fá leyfi til þess að fara inn á svæðið. Hún starfar á sjúkrahúsi í suðurhluta Gaza þar sem hörð átök hafa verið síðustu vikur og Ísraelsher sprengdi t.a.m skóla á veg­um Sam­einuðu þjóðanna þar sem flóttamenn höfðu leitað skjóls. Árás hefur einu sinni verið gerð á spítalann þar sem Elín starfar.

Segir ekki nei þegar hún getur hjálpað

Hún viðurkennir að hafa verið hikandi við að fara inn á svæðið en segist eiga erfitt með að segja nei þegar hún hefur tækifæri til þess að aðstoða. „Ég er líka að vinna með samtökum sem hafa strangar öryggisreglur og alþjóða Rauði krossinn er mjög virtur hér.“ Ásamt Elínu eru einnig skurðlæknir og svæfingarlæknir frá Rauða krossinum á sama spítala en þau vinna með heimamönnum sem að hennar sögn eru orðin mjög þreytt enda hefur mikið álag verið á þeim.

Andrúmsloftið er spennuþrungið og segir Elín flesta hafa misst einhvern. „Fólkið sem ég er að vinna með ber sig almennt vel en þau segja mér sögur af því sem þau hafa lent í. Öll hafa þau annað hvort misst sína nánustu eða einhvern sem þau þekkja. Ég held því að fáir upplifi sig óhulta.“

Flestir orðið fyrir sprengjubroti

Hún segir búnaðinn á spítalanum vera ágætan þótt tækin jafnist ekki á við þau á Íslandi. „Þetta eru ekki alvöru græjur eins og heima en það er hægt að gera margt og þau ná að gera hér aðgerðir. En það er skortur á lyfjum og nýjum tækjum,“ segir hún.

Fólkið sem kemur inn á spítalann hefur í flestum tilfellum orðið fyrir sprengjubroti og segir hún kviðarholsaðgerðir og aðgerðir á útlimum vera algengastar. „Við höfum þurft að taka mikið af útlimum af fólki. Fólkið hefur verið að fá sprengjubrot á ýmsa staði í líkamann og oftast þarf að geta fleiri en eina aðgerð þegar útlimur er fjarlægður. Akkúrat núna er hér ungur maður sem missti báða fótleggi vegna sprengjubrots,“ segir hún. Elín segist þó ekki hafa séð mikið af börnum koma inn á spítalann en hins vegar hafi kollegar hennar í Gazaborg tekið á móti fjölmörgum særðum börnum.

„Sést að hér hefur verið stríð“

Elín segir söguna á bak við fórnarlömbin hafa mikil áhrif á sig og nefnir sem dæmi að maðurinn sem nú liggur inni hafi misst sjö úr sinni fjölskyldu. „Þetta er ekki bara hann. Þetta hefur áhrif á svo marga aðra,“ segir hún. Þá segir hún að það sé mjög sérstakt að keyra um borgina og suðurhluta Gaza. „Það sést að hér hefur verið stríð. Þetta er svolítið eins og eftir stóran skjálfta. Húsin eru öll hrunin eða hálfhrunin og yfirgefin.“

Þriggja sól­ar­hringa vopna­hlé hófst á Gaza­ á þriðjudag og segir Elín ástandið því hafa verið rólegra. „Nú er vopnahléið í fyrsta sinn búið að halda og vonandi heldur það áfram. Það óska þess allir að þessu stríði verði lokið og að skrifað verði undir samninga. En það er spenna í andrúmsloftinu vegna þess að þetta hefur verið svo skelfilegt og fólk er auðvitað dauðhrætt um að þetta byrji aftur,“ segir hún.

Ungur Palestínumaður fær aðhlynningu á Kamal Edwan á Gaza.
Ungur Palestínumaður fær aðhlynningu á Kamal Edwan á Gaza. AFP
Elín segir flest hús vera hrunin. „Þetta er svolítið eins …
Elín segir flest hús vera hrunin. „Þetta er svolítið eins og eftir stóran skjálfta“ AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert