„Ótímabær dauðsföll eru óásættanleg“

Heilbrigður lífstíll er mikilvægasta forvörnin gegn hjarta- og æðarsjúkdómum.
Heilbrigður lífstíll er mikilvægasta forvörnin gegn hjarta- og æðarsjúkdómum. Eggert Jóhannesson

„Ótímabær dauðsföll eru óásættanleg, fræðilega séð. Þau eru ekki bara óréttlát, heldur er óásættanlegt að menn séu að deyja úr einhverju sem er fyrirbyggjanlegt,“ segir Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir hjá Hjartavernd.

Hann segir að æskilegt sé fyrir fólk að fara í skimun og athugun hjá lækni um 45 ára aldur. Mikilvægt sé að fólk átti sig á líkamsástandi sínu snemma til að auka líkur á heilbrigðu lífi í ellinni. Æðarsjúkdómar séu þess eðlis að hægt sé að hægja á þróun þeirra og jafnvel koma í veg fyrir áföll. 

„Það eru þekktir áhættuþættir fyrir hjarta- æðarsjúkdóma og þegar fólk er komið á 45 ára aldur er skynsamlegt að mæla blóðfitu og blóðþrýsting. Jafnvel fyrr ef þessir sjúkdómar eru í ættinni,“ segir Vilmundur. 

Flestir í miðlungs eða lágri áhættu 

Hann segir að langflestir sem fái afleiðingasjúkdóma frá æðarsjúkdómum á borð við heilablóðföll og hjartaáföll séu í miðlungs eða lágri áhættu, samkvæmt hefðbundnum aðferðum til að leita uppi slíka sjúkdóma.

Hann segir að efla þurfi skimun hjá þessum hópi. „Það þarf að efla það hvernig við finnum þá sem eru á þeirri braut að þróa með sér sjúkdóminn. Við hjá Hjartavernd erum að vinna heilmikið í því og erum að búin að þróa áhættureikna sem gera okkur kleift að sjá hverjir eru líklegir til að vera með æðarsjúkdóm sem er mælanlegur með myndgreiningu á borð við ómskoðun,“ segir Vilmundur. 

Horfa til lengri tíma 

Hann segir oft séu það ótímabær dauðföll einhvers nákomins eða einhvers þekkts einstaklings í samfélaginu sem reki fólk til læknis. „Það kemur róti á huga fólks og það er ekkert mál að láta mæla sína áhættuþætti og sjá hvort það er eitthvað sem mælist áberandi hátt.“

Hann segir að með þessum nýju nálgunum sé horft til lengri tíma. „Við erum að reyna að greina það hvernig fólk verður þegar það er um sjötugt,“ segir Vilmundur.

Langflestir lifa af

Vilmundur segir að langstærsti hluti aldraðra sem fái hjarta- eða heilaáfall lifi það af. „Þá er þetta orðin byrði fyrir fólkið sjálft sem og samfélagið að glíma við þessa sjúkdóma sem, fræðilega séð, er hægt að fyrirbyggja. Bæði til að seinka þróun sjúkdómanna, og að koma í veg fyrir afleiðingar af sjúkdómunum“, segir Vilmundur. 

Hann segir að 25-30% fólks eftir sjötugt lifi við afleiðingar sjúkdóma, annað hvort vegna heila- eða hjartaáfalls eða hefur þurft að fara í aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari vandamál.   

25-30% fólks yfir sjötugt lifir við afleiðingar hjarta- æðarsjúkdóma.
25-30% fólks yfir sjötugt lifir við afleiðingar hjarta- æðarsjúkdóma. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir hjá Hjartavernd.
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir hjá Hjartavernd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert