Ætla að byggja í brunarústunum

Bruni var í Grettisgötu 20 í morgun.
Bruni var í Grettisgötu 20 í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Húsið að Grettisgötu 62 sem brann í morgun er í eigu einkahlutafélags og hefur staðið autt frá því um mánaðarmótin mars og apríl. Til stendur að byggja við húsið og reisa fjögurra hæða hús. Búið er að sækja um framkvæmdaleyfi hjá Reykjavíkurborg. Bruninn ógnar ekki áætlunum um bygginguna. 

Fasteignamat um 30 milljónir 

Að sögn Björns Jakobs Björnssonar, lögmanns og forsvarsmanns einkahlutafélagsins RFL ehf., er ekki búið að meta tjónið af eigninni en það verði gert í samvinnu við tryggingafélagið á næstu dögum. „Fasteignamat á þeim hluta sem brann er um 30  milljónir,“ segir Björn Jakob, en félagið eignaðist húsið í nóvember á síðasta ári. Kaupverðið fékkst ekki uppgefið hjá Birni. 

Búið að sækja um framkvæmdaleyfi 

Björn segir að ástæðan fyrir kaupunum hafi verið aukin byggingarréttur upp á fjórar hæðir. Sótt hefur verið um framkvæmdaleyfi fyrir viðbygginguna. Hann segir að búið sé að samþykkja erindið í skipulagsnefnd, skipulagsráði og borgarráði. En breytingarnar eru í auglýsingu og tveggja mánaða andmælaréttur hófst í byrjun júlí. „Ég fæ ekki upplýsingar um það hvort einhver hafi andmælt fyrr en í lok þessa tímabils,“ segir Björn. 

Hjá byggingafulltrúa fengust þær upplýsingar að andmælarétturinn standi til 25. ágúst. Einnig kemur fram að til standi að fjarlægja hús sem stendur við Barónsstíg 20a til að rýma fyrir stærra húsi á Grettisgötu 62.  

Björn segir að eldurinn breyti ekki miklu um fyrirhugaðar framkvæmdir. Helst sé það í formi aukins kostnaðar við uppbygginguna. Í húsinu verða átta íbúðir í stað þriggja áður fari málið fer í gegnum skipulagsferli hjá Reykjavíkurborg. Ætlunin sé að byggja eftir teikningum sem gerðar voru árið 1921. 

Framkvæmdir áttu að hefjast í vor

Að sögn Björns stóð upphaflega til að hefja framkvæmdir í byrjun apríl. Öllum leigutökum var sagt upp samningi og voru þeir á brott í mars. „Síðan hefur teygst verulega á að fá þetta samþykkt út af kosningum og öðru. Svo höfum við líka átt í baráttu við hústökufólk. Allir leigutakar voru farnir út í marsmánuði, en í kjölfarið höfum við verið í baráttu við fólk sem á engan rétt á að vera þarna. Í því skyni höfum við lokað fyrir vatn og rafmagn. Eins höfum við reynt að birgja gluggana en fólkinu hefur alltaf tekist að komast þarna inn aftur,“ segir Björn.  

Sjá einnig: „Þetta var mínútuspursmál“ 

Og: „Einhverjir dópistar að kveikja í“

Slökkvilið að störfum við Grettisgötu 20 í morgun.
Slökkvilið að störfum við Grettisgötu 20 í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert