Greiði Hugsmiðjunni 7,6 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Iceland Excursion Allrahanda ehf. til að greiða Hugsmiðjunni ehf. 7.599.485 krónur fyrir vinnu við að hanna og forrita nýja vefsíðu fyrir fyrrnefnda fyrirtækið. Vinnunni við síðuna lauk aldrei.

Í dóminum segir að Hugsmiðjan hafi tekið að sér hönnun og forritun nýrrar vefsíðu fyrir Iceland Excursion Allrahanda, að annast mánaðarlega vefumsjónarþjónustu auk samþættingar við bókunarvél fyrirtækisins.

Forsvarsmenn Iceland Excursion Allrahanda héldu því fram að mikill afgreiðsludráttur hefði orðið á verkinu og því hafi samningi við Hugsmiðjuna verið rift. Hafi þá þegar verið greiddar 16,7 milljónir króna fyrir verkið.

Hugsmiðjan bar hins vegar við að ekki hefði tekist að klára verkið vegna verulegra vanefnda Iceland Excursion Allrahanda á að greiða fyrir vinnu aðalstefnanda í samræmi við verksamninginn.

Í niðurstöðu dómsins segir að ekki verði fallist á að Hugsmiðjan hafi vanefnt skyldur sínar verulega með töfum á afhendingu vefsvæðisins þar sem ekki var í samningi aðila mælt fyrir um hvenær verki yrði skilað. Forsvarsmenn Iceland Excursion Allrahanda hafi verið upplýstir um gang verksins á öllum stigum og gerðu ekki athugasemdir við stöðu verksins eða reikninga fyrr en Hugsmiðjan hafði hafið innheimtuaðgerðir vegna vanefnda sem fyrir liggur að voru verulegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert