Nýju sprungurnar mun nær jöklinum

Nýjar sprungur opnuðust í nótt suður af gosstöðvun­um en þær …
Nýjar sprungur opnuðust í nótt suður af gosstöðvun­um en þær eru nær Dyngju­jökli. mynd/Guðmundur Karl

„Það setur ugg að manni að sjá að nýju sprungurnar eru mun nær jöklinum en þessi sem er eldri,“ segir Guðmundur K. Sigurdórsson, ritstjóri fréttavefsins Sunnlenska, í samtali við mbl.is, en hann var um borð í flugvél sem flaug yfir svæðið á níunda og tíunda tímanum í morgun.

Nýjar sprungur opnuðust í nótt suður af gosstöðvun­um en hún er nær Dyngju­jökli. Þrjár gossprungur hafa myndast í Holuhrauni, í sigdalnum um 2 km frá Dyngjujökli, tvær þeirra í nótt. Ekkert virðist benda til þess að gosið sé í rénum og er skjálftavirkni á svæðinu svipuð og í gær. 

Með fréttinni fylgja myndir af sprungunum sem Guðmundur tók í morgun. 

Guðmundur segir að nýju sprungurnar séu talsvert langar, í henni sé löng samfella en mun minni kraftur en í eldri sprungunni. Þegar hann flaug yfir svæðið í morgun gaus aðallega á þremur stöðum í eldri sprungunni og kom hraunið upp af fullum krafti.

„Manni fannst meira eins og það kraumaði og bullaði aðeins í nýju sprungunum en það er þó erfitt að gera sér grein fyrir því svona ofan frá,“ segir Guðmundur.

Greinilega rosalegir kraftar 

„Mér fannst þetta ótrúlega glæsilegt, það er erfitt að lýsa þessu. Það eru greinilega rosalegir kraftar í gangi þarna, hrauntaumar í allar áttir, frábærir litir, þetta er engu líkt. Ég flaug yfir gosið á Fimmvörðuhálsi en það var allt öðruvísi,“ segir Guðmundur, aðspurður um upplifunina af því að fljúga yfir gos af þessu tagi.

„Það setur ugg að manni að sjá að nýju sprungunar eru mun nær jöklinum en þessi sem er eldri,“ segir Guðmundur en hann telur að nýju sprungurnar séu ef til vill um einum og hálfum kílómetra frá sporði jökulsins.

Guðmundur sveimaði yfir gosstöðvunum í um klukkustund ásamt félaga sínum og segir hann að virkni í syðsta hluta annarrar nýju sprungunnar hafi minnkað töluvert á þeim tíma. 

Vísindamenn fylgjast með úr 20 km fjarlægð

Lögreglustjórinn á Húsavík ákvað í morgun að loka fyrir alla frekari umferð inn á svæðið norðan Vatnajökuls í ljósi upplýsinga um að ný sprunga hefði myndast á svæðinu. Fjölmiðlar og vísindamenn hafa til þessa haft takmarkaðan aðgang að svæðinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Á meðan þessi óvissa varir er ekki talið rétt að hleypa fleirum inn á svæðið. Jafnframt hefur verið sett upp innri lokun á vegi 910 við Vaðöldu.

Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri almannavarna ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að lokanirnar séu enn í gildi. Hann telur líklegast að staðan verði endurskoðuð í fyrramálið en þó er reglulega farið yfir stöðu mála. Hann segir vísindamennina fylgjast með gosinu úr 20 kílómetra fjarlægð. 

Þá var farið í eftirlitsflug með vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands í morgun og eru þeir enn í loftinu. 

Fjórir möguleikar líklegastir

Fjór­ir mögu­leik­ar eru enn tald­ir lík­leg­ast­ir um fram­vindu: 

  • Að inn­flæði kviku stöðvist og skjálfta­hrin­an fjari út og ekki komi til ann­ars eld­goss.
  • Gang­ur­inn nái til yf­ir­borðs á fleiri stöðum utan jök­uls. Ekki er hægt að úti­loka gos með hraun­flæði og/​eða sprengi­virkni.
  • Gang­ur­inn nái til yf­ir­borðs und­ir jökli. Gosið myndi leiða til jök­ul­hlaups í Jök­ulsá á Fjöll­um og e.t.v. einnig sprengigoss með ösku­falli.
  • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jök­ul­hlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með ösku­falli. Mest­ar lík­ur eru á að hlaup kæmi niður Jök­ulsá á Fjöll­um, en ekki er hægt að úti­loka aðrar hlaupaleiðir: Skjálf­andafljót, Kalda­kvísl, Skaft­ár­katla og Grím­svötn.

 Ekki er hægt að úti­loka aðrar sviðsmynd­ir.

Þá er litakóði fyr­ir flug app­el­sínu­gul­ur fyr­ir Bárðarbungu og gul­ur fyr­ir Öskju.

mynd/Guðmundur Karl
mynd/Guðmundur Karl
mynd/Guðmundur Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert