Íslendingar geta eignast hluta rokksögunnar

„Það væri gaman að fá Íslendinga með mér í lið …
„Það væri gaman að fá Íslendinga með mér í lið því margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Smutty Smiff um styrktartónleikana sem hann stendur fyrir í Háskólabíói í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér var hent út í djúpu laugina þegar pönkið var að byrja. 18 ára frá Austur-London með tattú úti um allt og skyndilega var Andy Warhol einn af mínum vinum. Hann var flottur, pínu klikkaður en skemmtilegur,“ segir Smutty Smiff þegar hann tekur á móti blaðamanni. Smutty situr við tölvuna og er á Facebook að skoða mynd af sér sem Andy Warhol tók af hljómsveitinni sem Smutty var í, The Rockats. Myndin var boðin upp nýlega og seldist á 20 þúsund dollara, eða 2,3 milljónir króna. „Það hefði verið gott að fá eitthvað af þessum peningum fyrir Frosta,“ segir Smutty og víkur að tónleikunum sem hann er að standa fyrir, Rokk fyrir Frosta, sem haldnir verða í dag kl. 17 í Háskólabíói, og eru til styrktar Frosta Jay Freeman.

Frosti er sjö ára gamall og með syni Smutty í bekk. Frosti greindist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem kallast Ataxia telangiectasia eða AT og er Frosti þriðji Íslendingurinn sem greinist með sjúkdóminn. AT leggst meðal annars á taugakerfi og ónæmiskerfi og hvorki er til lækning né hægt að hindra framgang hans og því beinist meðferð fyrst og fremst að því að auka lífsgæði Frosta. Frosti notast að hluta til við hjólastól en fjölskyldan býr á þriðju hæð í fjölbýli með engri lyftu.

„Ég sá Frosta og mig langaði að gera eitthvað fyrir hann. Fjölskyldan þarf að bera hann upp og niður á hverjum degi, alla leið upp á þriðju hæð. Í fyrstu áttu tónleikarnir að vera litlir, á Bar 11 eða eitthvað álíka, en svo fór ég að spyrja nokkra stráka sem ég þekkti og þekkti ekki og það vildu allir koma og hjálpa. Allir sögðu bara: Hvert á ég að mæta og hvenær? Bubbi leit á þetta og sagði: Það væri mér heiður að fá að mæta. Ég var að skoða gamalt efni með Bubba um daginn og þetta er alvörudót sem hann var að gera. Hann var og er alvörumaður en það var frábært að fá hann til liðs við okkur.“

Smutty er vel þekktur víða um heim eftir að hafa verið í rokkabillí rokksenunni í fjölmörg ár. Hann ákvað, fyrst allir Íslendingar voru svona meðtækilegir fyrir þessum tónleikum, að hringja í gömlu vini sína og athuga hvort þeir vildu aðstoða. Gömlu vinirnir eru meðal annars kynningarfulltrúi Davids Bowie og þeir Mick Rock og Bob Gruen, hinir heimsfrægu rokkljósmyndarar en Gruen var einkaljósmyndari Johns Lennons. meðal annars.

„Ég hafði samband við þá og það var eins hjá þeim. Um leið og ég hafði sagt þeim fyrir hvað þetta væri sendu þeir mér nokkrar myndir, upprunalegu myndirnar sem verða áritaðar handa kaupandanum. Mick er einn frægasti rokkljósmyndari allra tíma, og góður vinur minn, hálfgerður stjúpi minn. Ég hef þekkt hann í um 30 ár eða svo. Hann hefur myndað Syd Barrett, David Bowie, Lou Reed, Iggy Pop, Queen, the Sex Pistols, The Ramones, Blondie og fleiri og fleiri. “

Margir með kópíur af þessum myndum

Smutty ætlar að bjóða þessar myndir upp. Þarna má finna frægar myndir af Led Zeppelin, John Lennon, The Clash og fleiri. „Svo er meira,“ segir Smutty og teygir sig í annað umslag þar sem hann tekur upp myndir sem eru úr einkasafni þessara manna. Myndir sem aldrei hafa sést áður opinberlega. David Bowie í Moskvu árið 1972, Sex Pistols í upphafi ferils síns að spila lög inni á hótelherbergi árið 1976, Debbie Harry áður en hún varð hin ljóshærða Blondie og fleiri og fleiri. Undirritaður titraði og skalf við að fá að halda á rokksögunni. „Mér líður eins og Bob Geldof en auðvitað á minni skala. Live Aid byrjaði allt með litlum neista og boltinn er svo sannarlega byrjaður að rúlla fyrir þessa tónleika.

Síðan á ég von á fleiri myndum. Ég mundi eftir einum vini mínum sem vinnur á Vanity Fair og tók myndina af Al Pacino þegar hann lék í Scarface. Hann ætlar að senda mér mynd sem hann tók í þeirri töku. Ekki sem er á kvikmyndaplakatinu en í sömu seríu. Al Pacino í hvítu jakkafötunum – það er ein uppáhaldsmyndin mín. Þetta gæti orðið að einhverjum peningum sem vonandi leysir einhver vandamál Frosta.

En það er alltaf en, er það ekki? Vandamálið núna er að tónleikarnir eru orðnir svo stórir um sig að mig vantar fleiri styrktaraðila. Ég er nánast að setja sjálfan mig á hausinn því ég er bara bassaleikarinn Smutty Smiff og þess vegna vantar mig smáaðstoð. Það væri geggjað að fá einhvern með sér í þetta verkefni. Domino's ætlar að hjálpa og Bros prentar boli sem verða seldir. En ég á eftir að borga Fedex römmun á myndunum og fleira og fleira og þetta er orðið miklu stærra en ég hélt. Kannski sel ég bara eina frummynd fyrir tónleikana til að gefa mér smá andrými. Ég hef farið á marga veitingastaði hér á Íslandi og það eru margir með kópíur af þessum myndum en hér heldurðu á frummyndunum.“

Stoltur en um leið stressaður

Smutty rekur kassann út og segist vera stoltur af sjálfum sér fyrir að vera að skipuleggja þúsund manna styrktartónleika. „Öll innkoma og allt sem kemur inn fer beint til Frosta og fjölskyldu hans – myndirnar eru bara örlítið extra. Takmarkið er að þau geti flutt á jarðhæð fyrir jól. Ég ætlaði bara að halda eitthvert lítið gigg – bjóst ekki alveg við að þessari þróun. Ég er pínu stoltur en um leið er ég líka stressaður því ég kann ekki að halda þúsund manna tónleika. Ég er með fjölskyldu sjálfur og ekki með neina skrifstofu eða endalaus fjárráð. En þetta er gott málefni og þá má ekki kvarta um of.

Svo lít ég á þessa tónleika líka svolítið þannig að þetta sé minn þakklætisvottur til Íslands. Ég er útlendingur og bý í landinu ykkar, konan mín er íslensk og börnin mín líka. Ég er að reyna að læra tungumálið og þetta er mitt heimili. Ég kalla Ísland heimili mitt.“

Helmingurinn hvarf í hruninu

Smutty er giftur Katrín Rósu Stefánsdóttur en þau kynntust í London fyrir áratug. „Ég hitti hana á bar þar úti og við smullum saman. Þegar hún þurfti að fara til Íslands vegna veikinda föður síns kom ég með. Ég hafði aldrei hugsað mér að fara til Íslands, ég meina hver fer hingað? Maður fer þangað sem sólin skín.

Við ætluðum bara að vera hérna í smástund og flytja svo til Brooklyn eða Seattle en svo skall kreppan á. Við áttum smápening en skyndilega átti ég bara helminginn af því sem ég átti í banka. Svo hugsaði ég; Ég hafði búið í Los Angeles í tíu ár og það var eitt sinn skotárás rétt við heimili mitt og þá fékk ég nóg. Mig langaði í fjölskyldu – þó að ég eigi eina dóttur í Seattle og hér er ég enn með tvö frábær börn og stórkostlega konu.“

Smutty er fæddur í austurhluta Lundúna 1959. Faðir hans lét sig hverfa og mamma hans drakk mjög mikið. Smutty leitaði í félagsskap svokallaðra Teddy boy's en ætli sé ekki hægt að kalla John Travolta í Grease þannig gaur. Nema Smutty hafði húðflúr og það fjöldamörg. „Ég kunni vel við þetta mótorhjólalúkk. Ég var kominn með húðflúrermi á báðum handleggjum 1976. Þá var það mjög nýmóðins og hendurnar á mér vöktu mikla athygli.“

Tengdi við rokkabillíið

Á YouTube má sjá myndband af frumraun Levi And The Rockats í bandarísku sjónvarpi en þeir spiluðu í þættinum Midnight Special með Burt Sugarman. Í sama þætti spiluðu The Jacksons og Journey. Þar fer Smutty á kostum á bassanum spilandi rokkabillí. Gullkista YouTube er frábær þegar kemur að því að sjá Smutty í bandarísku sjónvarpi.

„Rokkabillí var tónlistin sem ég tengdi við. Mamma drakk helvíti mikið og þegar ég var 16 ára langaði mig að gera eitthvað annað. Pönkið var að koma en mér fannst rokkabillíið bara eitthvað svo skemmtilegt.“ Hann segir að hlutirnir hafi gerst hratt en vinur hans, Levi Dexter, fékk hann til liðs við hljómsveitina. „Mig vantaði fólk í kringum mig og flestir sem ég kynntist voru eldri en ég. Svo var ég einu sinni í einhverri íbúð í London með Levi, hann hitti gæja sem var kynningarfulltrúi Davids Bowie og skömmu síðar hringdi hann og sagði: Viltu vera með mér í hljómsveit? Það er fullt af Bandaríkjamönnum í henni og við ætlum að túra með einhverjum öðrum böndum um Bandaríkin. Þetta verður geggjað þannig að ég sló til. Böndin sem komu með okkur voru The Clash, Sex Pistols og Damned en ég hafði ekki hugmynd um hvaða bönd þetta væru. Ári eftir símtalið var ég eltur niður Sunset Strip af brjáluðum grúppíum á leið í partí með The Clash.“

Fjölskyldumaður sem langar að gera líf drengs auðveldara

Fimmti kaffibollinn er að klárast og Smutty segir að fortíðin sé liðin en hann muni aldrei hætta að spila. Skömmu eftir komu hans hingað til lands var hann kominn upp á svið með Esju sem Daníel Ágúst og Krummi voru með. „Það er gaman að vera á ferðinni með hljómsveit. Ég meina, ég er búinn að koma til Japans 11 sinnum. Ég mun aldrei hætta að spila en fjölskyldan á hug minn allan. Ég er fjölskyldumaður sem langar að gera líf drengs auðveldara. Tónleikarnir eru á sunnudegi og fólk hefur ekkert betra að gera á þessum degi en að gera lífið aðeins betra fyrir drenginn. Mig langar að geta gert svo mikið en get gert svo lítið. Það væri gaman að fá Íslendinga með mér í lið því margt smátt gerir eitt stórt.“

Kaffið er búið.

Tenglar:

Frumraunin í bandarísku sjónvarpi. Bob Sugerman, umsjónarmaður þáttarins, er einstaklega hrifinn af Smutty.

Heima hjá Andy Warhol – The Factory, í viðtali við Debbie Harry (Blondie).

Sviðsframkoma á á heimsmælikvarða.

Smutty með fjölskyldunni sinni.
Smutty með fjölskyldunni sinni.
Ljósmynd Bob Gruen af The Clash.
Ljósmynd Bob Gruen af The Clash.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert