Þurfa að trúa á framtíð landsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Markmið okkar verður ætíð að vera að samfélagið haldi áfram að batna, kynslóð fram af kynslóð. Hið sama á við um landið okkar, náttúruna sem er okkur svo gjöful og auðlindirnar sem við verðum að nýta á skynsamlegan og sjálfbæran hátt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra meðal annars í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Þar lýsti hann framtíðarlandinu Íslandi. Þar ættu fjölskyldurnar að ná endum saman um mánaðamót, öryrkjar að geta lifað mannsæmandi lífi og eldriborgararað fá notið afraksturs ævistarfsins. Þar ættu allir að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Allir ættu að hafa jafna möguleika á menntun og starfsframa og langtíma atvinnuleysi ætti ekki að líðast. Ungt fólk ætti að geta fengið vinnu við hæfi í framhaldi af námi og litið á Ísland sem vænlegan framtíðarstað, fundið að hér á landi væri gott að búa og að gott að stofna fjölskyldu og ala upp börn.

„Íslendingar þurfa sjálfir að trúa á framtíð landsins til að við getum byggt á grunni þeirra styrkleika sem samfélagið býr nú þegar yfir. Við viljum að á Íslandi séu allir metnir að verðleikum án tillits til þess sem gerir okkur ólík og að allir séu jafnir fyrir lögum. Við viljum að samfélagið virði frelsi og drifkraft einstaklingsins til að móta eigið líf en að einnig sé þess gætt að enginn sé skilinn eftir.“

Árangur sem tekið hefði verið eftir

Forsætisráðherra ræddi ennfremur um stöðu efnahagsmála á Íslandi og þann árangur sem hefði náðst. Markvissar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsstjórn hefðu skilað árangri sem tekið væri eftir á alþjóðlegum vettvangi. Hagvaxtarspár væru góðar, kaupmáttur hefði aukist og verðbólgu hefði verið komið niður fyrir markmið Seðlabankans og haldist þar samfleytt í sjö mánuði. Slíkur árangur hefði ekki náðst undanfarinn áratug. „Þetta er árangur sem fáar ef nokkrar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir og þótt víðar væri leitað.“

Sigmundur ræddi sömuleiðis um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Komnar væru til framkvæmda, eða vinna vel á veg komin, við allar aðgerðir í þingsályktun um aðgerðaáætlun sem lögð var fram eftir síðustu þingkosningar. Sagði hann þann fjölda fólks sem óskað hefði eftir leiðréttingu samkvæmt aðgerðunum hlyti að vera þingmönnum stjórnarandstöðunnar umhugsunarefni sem hefðu barist hatrammlega gegn þeim.

Tillögur lagðar fram á næstu mánuðum

Forsætisráðherra lagði áherslu á að stjórnvöld myndu ekki samþykkja lausnir vegna fjármagnshaftanna sem hefðu í för með sér enn frekari skerðingu á lífskjörum. Unnið yrði að lausn í samráði við helstu hagsmunaðila í samfélaginu sem yrði bæði efnahagslega möguleg og samfélagslega ásættanleg.

„Stjórnvöld hafa sér til aðstoðar afar færa erlenda sérfræðinga á sviði lögfræði auk efnahagslegra ráðgjafa sem aðstoða við mótun þjóðhagslegra skilyrða. Efnahagsstefna stjórnvalda við afnám fjármagnshafta verður byggð á þessum skilyrðum ásamt ítarlegri greiðslujafnaðargreiningu. Reiknað er með að niðurstöður og tillögur til Alþingis um lagasetningu verði lagðar fram á næstu mánuðum.“

Forsætisráðherra sagði að þetta ætti meðal annars að ryðja brautina að lyktum skuldaskila slitabúa föllnu bankanna. Komast þyrfti að niðurstöðum sem væru ávallt í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldaskilareglur en samrýmdust um leið efnahagslegum stöðugleika Íslands og vexti til framtíðar.

Forsætisráðherra sagði að þó saga Íslands á síðustu öld hafi verið einhver mesta framfarasaga sem þekktist væri mikið starf óunnið. „Framtíðarlandið Ísland byggir tilveru sína á því að við berjumst saman fyrir því að nýta auðlindirnar, tækifærin, þekkinguna og mannauðinn á skynsamlegan hátt, til að skapa það samfélag velferðar, jöfnuðar, atvinnu og réttlætis sem við viljum tilheyra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert